Nýjar höfuðstöðvar eiga ekki að skyggja á Hörpu

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Kristinn

Framkvæmdir við nýjar höfuðstöðvar Landsbankans gætu hafist í lok næsta árs eða byrjun ársins 2017. Heildarfjárfesting með lóðarverði er um 8 milljarðar, en gert er ráð fyrir að heildarstærð byggingarinnar verði 16.500 fermetrar. Þar af ætlar Landsbankinn að nota 14.000 fermetra til að byrja með. Þetta segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, í samtali við mbl.is, en áform bankans um að reisa höfuðstöðvarnar á nýrri lóð við hafnarbakkann í Reykjavík.

Reikna með að taka húsið í notkun 2019

„Við reiknum með að þetta verði klárað á árinu 2019,“ segir Steinþór aðspurður um framkvæmdartímann. Hann segir að núna í ágúst verði farið í opna hönnunarsamkeppni þar sem allir arkitektar séu hvattir til að senda inn hugmyndir sínar.

Í dag er bankinn með höfuðstöðvar við Austurstræti 11 og þrettán öðrum húsum í miðbænum. Til viðbótar er félagið með bakvinnslu í Mjóddinni og geymslur á tveimur öðrum stöðum. Segir Steinþór að með nýjum höfuðstöðvum verði hægt að koma allri þessari starfsemi fyrir á einum stað. Þar sem núverandi húsnæði, sérstaklega í miðbænum, sé nokkuð óhagkvæmt verði hægt að minnka heildar fermetrafjölda úr 30 þúsund fermetrum niður í um 14 þúsund fermetra að hans sögn.

Afstöðumynd af nýju höfuðstöðvum Landsbankans.
Afstöðumynd af nýju höfuðstöðvum Landsbankans. Mynd/Landsbankinn

Á ekki að skyggja á Hörpu

Nýju höfuðstöðvarnar verða á næstu lóð við Hörpu tónlistarhús, en Steinþór segir að þær eigi ekki að vera í samkeppni við tónlistarhúsið. „Harpa á að vera sérstök. Þessi bygging [nýju höfuðstöðvarnar] á að vera falleg, tímalaus og hógvær þannig að hún sé viðeigandi,“ segir hann aðspurður um gagnrýni um að húsið gæti skyggt á Hörpu.

Ráðamenn hafa einnig verið nokkuð duglegir við að gagnrýna hugmyndir um uppbygging höfuðstöðvanna. Þannig sagði Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, að frekar ætti að nota fjármuni bankans til að greiða arð til ríkissjóðs sé bankinn aflögufær að byggja nýjar höfuðstöðvar. Þá kalli byggingin á kaup á erlendum gjaldeyri og ýti undir aukið peningamagn og verðbólgu. Þá hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, einnig gagnrýnt uppbygginguna, bæði kostnað við hana sem og að stór skrifstofubygging á þessum reit skyggir útsýni á hafið og Esjuna frá miðbænum.

Frosti Sigurjónsson, alþingismaður, hefur gagnrýnt byggingu nýrra höfuðstöðva á þessum …
Frosti Sigurjónsson, alþingismaður, hefur gagnrýnt byggingu nýrra höfuðstöðva á þessum stað. Ómar Óskarsson

Lítur á gagnrýni ráðamanna sem varnarorð og brýningu

Steinþór segist líta á þetta sem varnaðarorð til bankans og að gott sé að fá brýningu þannig að menn vandi sig enn meira við verkið. „Okkar verk þurfa að geta staðist skoðun,“ segir hann og bætir við að starfsmenn bankans hafi legið yfir þessu í langan tíma og að þeir telji ljóst að mikill ávinningur sé af þessari uppbyggingu. Þannig er því spáð að með því að hætta að leigja á fjölda staða og færa starfsemina á einn stað megi spara um 700 milljónir á ári. Samkvæmt arðsemisgreiningu bankans er gert ráð fyrir því að byggingin borgi sig upp á um 10 árum.

Segir Steinþór að horfa þurfi til fjölda þátta. Þannig hafi lóðin fengist fyrir mjög ásættanlegt verð, bílastæðamál séu með þeim hætti að ekki þurfi að byggja mörg slík sem spari háar fjárhæðir. Þá sé góð tenging við almenningssamgöngur í miðbænum og það nýtist bæði starfsfólki og viðskiptavinum. Segir hann að með þessu skrefi sé í raun verið að stoppa sóun sem sé í gangi í dag hjá bankanum. Þá bendir hann á að gagnrýni Frosta sé furðuleg í ljósi þess að sjálfur hafi hann sem forstjóri Nýherja látið byggja nýjar höfuðstöðvar þess fyrirtækis og sagt að það hafi verið gríðarlegur hagur í því fyrir fyrirtækið. Segir hann það sama upp á teningnum fyrir Landsbankann.

Vill ekki lundabúðir í gamla húsnæðið

Landsbankinn á í dag húsnæðið við Austurstræti 11 og samliggjandi hús. Stærstur hlutinn er þó í leigu. Steinþór segir að í dag hafi bankinn opnað á hugmyndasamkeppni fyrir húsnæðið að Austurstræti 11, en þar er í dag aðalútibú bankans. Innandyra eru meðal annars veggmyndir eftir Jóhannes Kjarval og Jón Stefánsson. Steinþór segir að bankinn vilji nú sjá það hús nýtt í eitthvað áhugavert, enda tilheyri það menningararfi landsins. „Þetta er hluti af byggingararfi okkar og menningu. Þetta er glæsilegt hús og listaverk. Það væri gaman að þetta væri nýtt til framtíðar þannig að það sé opið, aðgengilegt og nýtist til að efla menningarlíf í borginni,“ segir Steinþór um framtíðarmöguleika hússins.

Núverandi höfuðstöðvar bankans við Austurstræti. Þar hefur bankinn verið til …
Núverandi höfuðstöðvar bankans við Austurstræti. Þar hefur bankinn verið til húsa síðan 1924, eða í rúmlega 90 ár. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hann segir ekki enn komið í ljós hvað verði þar, en að bankinn vilji skoða það vandlega. Þannig hafi t.d. ekki enn verið ákveðið hvort bankinn muni áfram eiga húsið eða ekki. Þeir séu þó ekki tilbúnir að hvað sem er verði þar. „Það er mikið af lundabúðum í dag, okkur fyndist skemmtilegra ef þetta færi í eitthvað annað,“ segir hann. Hönnunarsamkeppnin verður opnuð núna í ágúst, en henni mun ljúka í febrúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK