Kanna lagalegu stöðu AFLs

Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, segir það skyldu bæjarráðsins að fá að vita hver sé lagaleg staða sparisjóðsins AFLs, áður Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðs Skagafjarðar, eftir að tilkynnt var um yfirtöku Arion banka á sjóðnum.

Sveitarstjórn Skagafjarðar og bæjarráð Fjallabyggðar hafa samþykkt að veita bæjarstjórum sveitarfélaganna umboð til að gæta hagsmuna íbúanna í þessu máli.

Bæjarráð Fjallabyggðar ályktaði fyrr í vikunni að um mikilvægt mál væri að ræða fyrir íbúa Fjallabyggðar og Skagafjarðar og eðlilegt að lagalegur réttur í málinu væri kannaðar.

AFL stendur í málaferlum við aðaleiganda sinn, Arion banka, vegna erlendra lána sjóðsins frá því fyrir hrun. Einn dómur er fallinn, AFLi í óhag, en dómnum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Álitamál um samfélagssjóð

Gunnar segir að ef erlendu lánin verði dæmd ólögleg í Hæstarétti, þá myndi skuldastaða AFLs við Arion banka lækka og til yrði óráðstafað eigið fé, þ.e.a.s. eigið fé sem er meira heldur en stofnfé.

„Ef það er óráðstafað eigið fé, eins og okkur sýnist vera, þá á að ráðstafa því í ýmis framfaramál í héraði. Í stjórn slíks samfélagssjóðs eiga að sitja einn frá innanríkisráðuneytinu, einn frá menntamálaráðuneytinu og einn frá sveitarfélögunum,“ segir Gunnar.

Hann nefnir að næsta skref sé að biðja lögfræðing sveitarfélagsins um að afla gagna í málinu. „Ef þessi erlendu lán verða dæmd lögleg, þá er ekkert um að ræða. Þá er það mál búið. En við viljum fá að afla gagna í málinu. Það þarf að fara áfram og verða flutt í Hæstarétti. Þetta þarf að gerast.“

Gunnar furðar sig jafnframt á blaðagrein upplýsingafulltrúa Arion banka, sem birtist í Morgunblaðinu 27. júní síðastliðinn. Þar segir upplýsingafulltrúinn að allt tal um samfélagssjóð sé ábyrgðarlaust og aðeins til þess fallið að villa um fyrir almenningi. „Erfitt er að átta sig á hvað mönnum gengur til með slíkum málflutningi, á ég til að mynda við ummæli bæjarstjóra Fjallabyggðar í fjölmiðlum,“ segir í greininni.

Gunnar segir upplýsingafulltrúann vera að reka horn í síðu sína í þessum málum. „Ég er hér ráðinn til að gæta hagsmuna íbúa Fjallabyggðar og ég geri það. Og það munu engar upphrópanir frá Arion banka þar að lútandi trufla mig. Ég læt svona hálfgerðar hótanir eins og vind um eyru fjúka.”

Fréttir mbl.is:

Hugleiðingarnar ekki svaraverðar

Ari­on banki „einnota í viðskipt­um“

AFL rennur inn í Arion banka

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar.
Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK