Kemur niður á vaxtakjörum viðskiptavina

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Skjáskot af Althingi.is

Bygging nýrra höfuðstöðva Landsbankans við hafnarbakkann í Reykjavík á dýrri byggingarlóð mun koma niður á vaxtakjörum viðskiptavina sem munu alltaf borga svona framkvæmdir að lokum. Þetta segir Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is. „Mér líst mjög illa á þetta og hef varað við þessu í langan tíma,“ segir hann.

Ef þetta er hagstætt væri ódýrari kostur enn hagstæðari

Frosti segir að stjórnarmenn bankans verði að velta því fyrir sér hvort ekki væri betra að finna ódýrara húsnæði eða byggingarland ef þeir vilja bjóða landsmönnum upp á hagstæðari kjör. „Þetta kemur niður á vaxtakjörum til viðskiptavina, verður allt borgað af þeim,“ segir Frosti og bætir við að sér finnist staðsetningin við höfnina vera með ólíkindum.

Í kynningu Landsbankans var bent á að flutningur gæti sparað bankanum 700 milljónir á ári miðað við núverandi staðsetningu og þá væri nýtt húsnæði mun passlegra fyrir bankann sem gæti minnkað þann fermetrafjölda sem hann notar í dag um helming. Þá muni fjárfesting í nýjum höfuðstöðvum borga sig upp á um 10 árum. Frosti segir að ef hægt sé að reikna það út að nýjar höfuðstöðvar á þessum stað séu hagkvæmar, þá sé líka hægt að reikna það út að höfuðstöðvar á ódýrari stað væru enn hagkvæmari.

Afstöðumynd af nýju höfuðstöðvum Landsbankans.
Afstöðumynd af nýju höfuðstöðvum Landsbankans. Mynd/Landsbankinn

„Svona starfsemi þarf ekki að vera í miðbænum

„Svona starfsemi þarf ekki að vera í miðbænum, þetta er með öllu óskiljanlegt,“ segir hann. Segir að mun heppilegra hefði verið að hafa starfsemi á þessum stað sem hefði meira aðdráttarafl en banki og bakvinnsla banka. Segir hann að aðalatriði við rekstur banka sé að gera það á sem hagkvæmastan hátt og þá hafi stjórnendur skyldur gagnvart eigandanum, sem í þessu tilfelli sé ríkið. „Það hefur ekki komið fram rökstuðningur að þetta sé betri staður en aðrir staðir,“ segir Frosti.

Áhyggjur af metnaði og dýrum byggingarstíl

Þá á Frosti ekki von á öðru en að gífurlegur metnaður verði settur í byggingu höfuðstöðva á svona stað. Segist hann hafa áhyggjur að horft verði til þess að byggja í viðlíka stíl og var vinsæll fyrir hrun, eða dýrum byggingarstíl, að hans sögn. Telur hann eðlilegra að skrifstofustarfsemi eins og bankastarfsemi ætti að sýna ráðdeild og byggja einfalda skrifstofubyggingu í hverfi þar sem slík bygging væri hluti af sambærilegri heild, en ekki niðri við höfnina. Segir hann ráðamenn bankans ekki sýna svona athugasemdum áhuga. „Þeir yppa bara öxlum yfir staðavali og kostnaði. Búið að benda á ódýrari lóðir,“ segir Frosti, en að hans sögn hefur ekkert komið fram í málinu sem hefur fengið hann til að skipta um skoðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK