Stríðið um Financial Times

AFP

Þegar stærsta fjölmiðlafélag Japans, Nikkei, keypti FT Group á fimmtudaginn lauk 58 ára eignarhaldi útgefandans Pearson á fornfræga viðskiptablaðinu Financial Times.

Litlu munaði hins vegar að þýska útgáfufélagið Axel Springer hefði eignast blaðið. Japanarnir buðu þó betur að lokum. „Þetta kláraðist á seinustu tíu mínútunum,“ sagði heimildarmaður FT sem tók þátt í viðræðunum.

Tíðindin komu á óvart, enda hafði Axel Springer átt í viðræðum við forsvarsmenn Pearson um nokkurra mánaða skeið. Stjórnendur Nikkei höfðu hins vegar fyrst samband við félagið fyrir fimm vikum.

Mathias Döpfner, forstjóri Axel Springer, hafði leitt viðræðurnar við Pearson en til að byrja með var hugmyndin sú að kaupa minnihluta hlutafjár í FT Group. Seinna meir hafði hann hins vegar hug á að taka félagið að öllu leyti yfir.

„Þetta breyttist mjög hratt“

Hann gat hins vegar ekki boðið betur en Japanarnir. Þeir buðu 844 milljónir sterlingspunda, sem samsvarar rúmum 177 milljörðum íslenskra króna. Tilboðið kom mörgum í opna skjöldu, þar á meðal Döpfner, en virtir fréttamiðlar á borð við Reuters og Bloomberg höfðu greint frá því á fimmtudagsmorgninum að verið væri að ganga frá kaupum Axel Springer á FT Group.

„Þetta breyttist mjög hratt,“ segir heimildarmaður FT. Nikkei og Pearson töldu að ef félögin myndu skrifa undir samning klukkan tvö, þá þyrftu þau að tilkynna um hann klukkan þrjú. Það gekk nánast eftir.

Eftir að Axel Springer varð kunnugt um tilboð Nikkei, sem hann taldi sig ekki geta yfirboðið, þá gaf hann strax út örstutta tilkynningu, þar sem hann hafnaði „öllum getgátum“ um að félagið væri að kaupa FT.

Sjö mínútum síðar, klukkan 15:13, tilkynnti Pearson að Nikkei hefði keypt FT Group. Kaupverðið væri 844 milljónir punda. 

Stofnað árið 1888

Í sölunni fylgir auk Financial Times, meðal annars vefsíðan FT.com og tímaritin The Banker og Investors Chronicle. Höfuðstöðvar blaðsins við One Sotuhwark Bridge í Lundúnum eru hins vegar undanskildar og má segja það sama um 50% hlut Pearson í The Economist Group, sem er útgefandi tímaritsins The Economist.

Financial Times, sem er á meðal virtustu dagblaða heims sem fjalla um efnahags- og fjármál, var stofnað árið 1888. 

Upplag FT í prentaðri útgáfu og netútgáfu hefur vaxið um 30% síðustu fimm árin og er nú 737 þúsund eintök. Um 70% upplagsins er selt í gegnum netið.

Nikkei, sem gefur út stærsta viðskiptablað Japans, er með 3,12 milljónir áskrifenda og sölu sem nemur jafnvirði yfir 200 milljarða króna.

Pearson hefur undanfarin ár, eftir að John Fallon tók við forstjórastarfinu, verið í söluhugleiðingum, ef svo má segja. Fallon hefur sagt skýrlega að Financial Times sé ekki hluti af kjarnastarfsemi félagsins. Megináherslan sé lögð á menntunarmarkaðinn, en félagið sérhæfir sig í útgáfu kennsluefnis. Ólíkt Marjorie Scardino, forvera Fallons, hefur hann ávallt verið opinn fyrir öllum hugmyndum um að selja blaðið.

Í samtali við Financial Times sagði Fallon að Pearson hefði átt í sífellt meiri erfiðleikum með að einblína á bæði menntunarmarkaðinn og fjölmiðlamarkaðinn. „Það er erfitt að ríða báðum hestum jafn vel,“ sagði hann.

Nýtt umhverfi snjallsíma og samfélagsmiðla

Hann þvertók hins vegar fyrir það að Pearson hefði ekki sinnt Financial Times sem skyldi. Félagið hefði fjárfest í blaðinu fyrir gríðarháar upphæðir og leitt uppbyggingu þess á alþjóðamörkuðum. „Ég held ekki að fjárfestingin hafi verið aðalvandamálið.“

Hann nefndi þó að í nýju tækniumhverfi snjallsíma og samfélagsmiðla væri besta leiðin til að tryggja áframhaldandi árangur FT að það yrði hluti af alþjóðlegu stafrænu fréttafyrirtæki.

Yfirstjórnendur Financial Times voru orðnir heldur langþreyttir á vanrækslu útgefandans. Þeir töldu að hann hefði ekki sinnt hlutverki sínu sem eigandi nægilega vel. Samkeppnin væri hörð á fjölmiðlamarkaðinum en blaðið hefði því miður ekki verið í stakk búið til að takast á við hana.

Að mati eins af yfirstjórnendunum blaðsins var raunveruleg hætta á því að það glutraði niður þeim árangri sem það hefði náð. Að það tapaði samkeppnisforskotinu.

Tími kominn á breytingar

Á síðasta ári samþykkti Fallon loks að kanna leiðir - af fullri alvöru - til að selja blaðið. Hann sagði við starfsmenn FT í gær að eftir að hafa rætt við stjórnendur blaðsins, þá hafi orðið ljóst að Pearson væri ekki lengur besti eigandinn. Tími væri kominn á breytingar.

Axel Springer var fyrsta félagið til að ræða við Pearson um mögulegt samstarf, samkvæmt heimildum Reuters. Þá ræddi Fallon einnig við ýmsa fjárfestingasjóði sem og bókaútgefendur. Áhuginn reyndist nokkur.

En að lokum ákvað hann að taka hæsta boðinu og hámarka þannig arðsemina af sölunni. 844 milljónir punda væri viðunandi verð.

Frétt mbl.is: Financial Times selt til Japans

Höfuðstöðvar Financial Times í Lundúnum.
Höfuðstöðvar Financial Times í Lundúnum. AFP
Lionel Barber, ritstjóri Financial Times.
Lionel Barber, ritstjóri Financial Times. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK