Bæjarstjóri vill skila skömminni

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Alltof margir einstaklingar nota allar mögulegar leiðir til þess að komast hjá greiðslu útsvars á meðan sveitafélagið berst í bökkum. Langflestir þeirra, sem lítið eða ekkert greiða, eru í eigin rekstri en aðrir vinna bara svart. Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í nýjum pistli á heimasíðu bæjarfélagsins.

Hann segir að eðlilegar ástæður geti verið fyrir lágum launum, s.s. erfitt árferði eða tap, en „þegar maður hins vegar veit um fólk í eigin rekstri sem hefur það gott, ferðast oft á ári til útlanda, á sumarhús og fleiri eignir, en gefur upp á sig lágmarkslaun, verður maður vonsvikinn,“ skrifar hann.

„Á sama tíma gerir þetta sama fólk kröfur um fyrsta flokks þjónustu af hálfu Reykjanesbæjar, börnin ganga í skóla, fara í sund, eru á leikskólum, foreldrarnir á elliheimilum, fá aðstoð félagsþjónustunnar o.s.frv. á kostnað launþega sem greiða útsvar.“

Sýnir hvernig reikna megi uppgefin laun

Þá bendir hann á að álagningarskráin liggi frammi á bæjarskrifstofum til fimmtudagsins 6. ágúst og sýnir hvernig hægt sé að finna uppgefin laun út frá útsvarsgreiðslunni sem kemur þar fram.

Nú má jafnvel finna alþingismenn sem vilja banna opinbera birtingu álagningarskrárinnar. Það finnst mér ekki góð hugmynd,“ skrifar Kjartan.

Hann bendir á að druslugangan hafi farið fram í Reykjavík um nýliðna helgi þar sem markmiðið væri að skila skömminni þangað sem hún á heima; hjá gerendunum sjálfum. 

„Því velti ég fyrir mér hvort þörf sé á sams konar hugarfarsbreytingu, ekki bara í Reykjanesbæ heldur um allt land, hvað varðar þátttöku bæjarbúa í greiðslu sameiginlegs kostnaðar. Markmiðið væri að ná samstöðu um að helst öllum þætti sjálfsagt að bera sinn hluta af kostnaði vegna sameiginlegrar þjónustu í stað þess að keppast um að greiða sem minnst,“ skrifar Kjartan.

Margir reyna að komast hjá greiðslu útsvars á meðan bæjarfélagið …
Margir reyna að komast hjá greiðslu útsvars á meðan bæjarfélagið berst í bökkum, segir Kjartan. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK