Norðurál greiðir lægsta raforkuverðið

Norðurál á Grundartanga.
Norðurál á Grundartanga. mbl.is/Árni Sæberg

Norðurál á Grundartanga greiðir lægsta raforkuverðið til Landsvirkjunar af álframleiðendunum þremur á Íslandi. Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði greiðir örlítið hærra verð en Norðurál en álverið í Straumsvík, sem er í eigu Rio Tinto Alcan, greiðir langhæsta verðið.

Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum, greinir frá þessu á Orkubloggi sínu. Hann segir að lága raforkuverðið sem Norðurál og Fjarðaál greiða valdi því að meðalverð raforku til álvera á Íslandi sé með því allra lægsta í heiminum.

Fram kemur í umfjöllun Ketils að álverið í Straumsvík greiði hæsta raforkuverðið, sem nálgast að vera um 35 Bandaríkjadalir á megawattstund. Árið 2014 hafi Straumsvík greitt verð sem var tæplega 45% hærra en orkuverðið em Fjarðaál greiddi og nálægt 60% hærra verð en álverið á Grundartanga greiddi.

Ástæðan sé nýi raforkusamningurinn sem gerður var við Rio Tinto Alcan árið 2010. Ketill bendir á að samningurinn sé ólíkur orkusamningunum við hina álframleiðendurna, því í nýja samningum sé raforkuverðið ekki tengt álverði, heldur bandarískri neysluvísitölu.

Meðalverð til álvera í Afríku talsvert hærra

Í umfjölluninni upplýsir Ketill einnig að meðalverð Landsvirkjunar á hverri seldri megawattstund til álvera á Íslandi í fyrra, 2014, hafi verið rétt rúmlega 26 Bandaríkjadalir. Til samanburðar hafi sambærilegt verð til álvera í Afríku verið um 30% hærra og sambærilegt verð til álvera í Bandaríkjunum og Evrópu um 45% hærra.

Grafið hér til hliðar sýnir meðalverð Landsvirkjunar á raforku á tímabilinu 2005 til 2014.

Hann segir tvær meginskýringar á því hvers vegna meðalverð á raforku til álvera hér á landi sé svona lágt í alþjóðlegum samanburði.

Helsta skýringin sé raforkusamningurinn sem var gerður við Fjarðaál árið 2003. Þar hafi verið samið um verð sem var töluvert langt undir meðalverði á raforku til álvera á þeim tíma.

Hin skýringin sé sú að raforkusamningar við Norðurál, sem er í eigu Century Aluminum, dragi meðalverðið niður. Hann bendir á að samningur Landsvirkjunar við Century Aluminum sé tvískiptur, annars vegar frá 1997 og hins vegar frá 1999, en auk þess selji HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur/Orka náttúrunnar raforku til álversins.

„Það er athyglisvert að samningur Landsvirkjunar við Alcoa hljóðaði upp á svo til sama raforkuverð eins og kveðið er á um í samningi Landsvirkjunar við Century 1997/1999 - að teknu tilliti til breytinga á bandarískri neysluvísitölu (CPI).

Samningurinn „óvenju hagstæður“

Þegar litið er til annarra orkusamningar sem gerðir voru við ný álver upp úr aldamótunum sést að þessi samningur Alcoa frá 2003 er fyrirtækinu óvenju hagstæður. Og mögulega tryggir hann að Alcoa sé þarna með í sínum höndum einhverja eftirsóttustu framleiðslueininguna í álbransanum öllum,“ segir Ketill.

Hann nefnir að upplýsingarnar, sem koma fram í greininni, um raforkuverðið til álveranna byggi á fjölmörgum gögnum úr ólíkum áttum. Þar megi nefna ársskýrslur og ársreikninga viðkomandi fyrirtækja, álit ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, og skýrslur erlendra greiningar- og ráðgjafafyrirtækja. Sum þessara gagna séu opinber, önnur ekki.

Grafið hér sýnir meðalverð Landsvirkjunar á raforku til hvers og …
Grafið hér sýnir meðalverð Landsvirkjunar á raforku til hvers og eins álveranna á tímabilinu 2005-2014. Á grafinu er í öllum tilvikum sýnt meðalverð yfir hvert ár. Öll raforkuverðeru með flutningi. Skjáskot af Orkublogginu
Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík.
Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík. mbl.is/Sigurður Bogi
Fjarðaál í Reyðarfirði.
Fjarðaál í Reyðarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK