Innkalla Ástrík vegna klaufaskapar

Starfsmenn þurfa að líma strikamerkin á um helgina.
Starfsmenn þurfa að líma strikamerkin á um helgina. Mynd af Facebook síðu Borgar brugghúss

Annað árið í röð þurfti Borg brugghús að innkalla allar kippur af Gay Pride bjórnum Ástríki frá Vínbúðinni. Ástæðan er sú að rangt strikamerki var notað á umbúðirnar. Aftur.

„Þetta gerðist bara vegna klaufaskapar hjá okkur,“ segir Óli Rúnar Jónsson, vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni, eiganda Borgar brugghúss. „Hugmyndin var sú að minnka sóun og klára afgangs umbúðir frá síðasta ári. Það hefði kannski mátt sleppa því,“ segir Óli léttur.

Strikamerkið sem var notað á umbúðirnar er frátekið fyrir Tinda vodka og er í notkun í Vínbúðunum. Þar af leiðandi hefðu viðskiptavinir verið rukkaðir fyrir vodkaflösku en ekki bjórkippu á kassanum.

Handlíma ný strikamerki

Það komst upp um mistökin þegar starfsmenn Vínbúðarinnar voru að skanna kippurnar inn á lagerinn. Bjórinn var því sendur aftur heim í hús og nú þurfa starfsmen Borgar að handlíma ný strikamerki á 1.620 kippur. „Þetta verður skemmtileg helgi hjá okkur,“ segir Óli Rúnar glettinn og vonast til þess að hægt verði að koma bjórnum aftur í Vínbúðina rétt eftir helgi.

Þrátt fyrir að bjórnum hafi seinkað í Vínbúðina er hann kominn í sölu í Fríhöfninni, sem er ekki með sömu strikamerki í notkun, og á börum.

Þetta er eina upplagið af bjórnum sem fer í Vínbúðina þar sem um sérstaka árlega úrgáfu fyrir Gay Pride er að ræða. 

Ástríkur er gefinn út í tilefni Gay Pride
Ástríkur er gefinn út í tilefni Gay Pride Mynd af Facebook síðu Borgar brugghúss
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK