14 ára fangelsi í Líbor-máli

Tom Hayes á leið úr réttarsal í London á föstudaginn.
Tom Hayes á leið úr réttarsal í London á föstudaginn. AFP

Bankamaðurinn Tom Hays var í dag dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir að hafa hand­stýrt og hagrætt Libor-milli­banka­vöxt­un­um svo­nefndu með óeðli­leg­um hætti. Þetta er fyrsti dómurinn sem fellur í þessu umfangsmikla máli sem vakið hefur mikla athygli. Réttarhöldin hafa staðið yfir í tvo mánuði. 

Hayes var ákærður í átta ákæru­liðum og sakfelldur í þeim öllum. Hann er talinn hafa hagrætt vöxt­un­um í starfi sínu sem miðlari hjá UBS og Citigroup á ár­un­um 2006 til 2010.

Hays, sem er 35 ára gamall, neitaði sök og sagði stjórnendur bankanna hafa vitað af athæfinu Hann sagðist hafa staðið í þeir­ri trú að hann væri ekki að gera neitt rangt og aðspurður sagði hann að eini hvatinn hefði verið að græða eins mikla pen­inga og mögu­legt væri fyr­ir bank­ann.

Í frétt BBC segir að Hayes þurfi að minnsta kosti að afplána sjö ár óskilorðsbundin áður en hann gæti átt kost á reynslulausn.

Þá er andrúmsloftinu í réttarsalnum einnig lýst í frétt BBC. Þar segir að eiginkona hans hafi skrifað dóminn niður eftir dómaranum sem las hann upp. Á sama tíma hélt Hayes um höfuð sitt þegar dómari sagði hann hafa látið freistast vegna þess að hann gat það. Til þess að vinna sig upp. Þá sagði hann gjörðirnar hafa verið óheiðarlegar og rangar. 

Bresk­ir bank­ar hafa nú þegar greitt hundruð millj­óna dala til yf­ir­valda vegna sátt­ar sem var gerð vegna máls­ins. Rann­sókn­in á brot­un­um hef­ur staðið yfir í þrjú til fjög­ur ár.

Bresk yf­ir­völd segja að bank­arn­ir hafi gefið vill­andi upp­lýs­ing­ar og reynt að fegra stöðu sína til að fá betri Li­bor-vexti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK