Dýrt að eiga við Isavia

Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs.
Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs. Kristinn Ingvarsson

Isavia þarf að afhenda Kaffitári öll gögn frá útboðinu um leigurými í Flugstöðinni þar sem úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur hafnað beiðni Isavia um endurupptöku málsins. Eigandi Kaffitárs segir það hafa verið fyrirtækinu dýrt að eiga við Isavia.

Í maí komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að Isavia bæri að afhenda Kaffitári lista yfir þátttakendur í samkeppninni um leigurými í flugstöðinni sem og lista yfir einkunnir þeirra. Isavia krafðist þess að málið yrði tekið upp að nýju eða réttaráhrifum frestað en í úrskurði sem kveðinn var upp um mánaðarmótin hafnar nefndin sjónarmiðum Isavia.

Úrskurðurinn var kveðinn upp hinn 31. júlí sl. en Isavia hefur enn ekki afhent Aðalheiði Héðinsdóttur, eiganda Kaffitárs gögnin. Aðspurður um næstu skref segir upplýsingafulltrúi Isavia að verið sé að fara yfir málin með lögfræðingi. Frekari upplýsingar verða ekki gefnar að svo stöddu.

„Þeir hafa verið að neita okkur um þessi gögn og núna í heilt ár höfum við kallað eftir þeim þegar þetta ætti bara að vera sjálfsagður réttur allra sem skipta við opinber fyrirtæki,“ segir Aðalheiður. „Þetta er búið að kosta okkur ærinn pening í lögfræðikostnað.“

„Þarna er lítið fyrirtæki eins og við að eiga við einhvern risa með miklum kostnaði og það finnst manni bara helvíti hart,“ segir Aðalheiður.

Enginn rökstuðningur

Isavia ohf. bar því m.a. við fyrir kærunefndinni að afhending upplýsinganna gæti skert viðskiptalega hagsmuni þátttakendanna. Nefndin sagði hafnaði því og sagði ekkert hafa komið fram sem benti til þess.

Ástæðan fyrir því að Isavia þarf að afhenda öll gögn málsins er sú að fyrirtækin fengu engan rökstuðning fyrir einkunnagjöfinni sem réði því hvort þau fengju verslunarpláss. „Það er í hæsta máta mjög óeðlilegt að ekki sé veittur neinn rökstuðningur,“ segir Aðalheiður.

Til þess að geta áttað sig á röksemdunum er fyrirtækinu því nauðsynlegt að sjá samanburðinn.

Fái Aðalheiður gögnin segir hún næstu skref felast í því að fara í gegnum blaðabunkann. „Mér finnst í alvörunni skrítið að við skyldum hafa lotið í lægra haldi fyrir Segafredo, sem er útlensk keðja, því samkvæmt útboðslýsingunni átti ekki einungis leigan að ráða valinu,“ segir hún og bendir á að vöruframboð, íslenskar áherslur, starfsmannastefna, áætluð sala og umhverfisstefna hafi verið meðal annarra þátta.

Fékk þrjá fyrir fjárfestingar

Isavia hefur borið því við að listi yfir upphaflega þátttakendur sé ekki til en Aðalheiður hefur bent á að samkvæmt lögum um skjalavörslu beri hinu opinbera að tryggja fullnægjandi skráningu og vistun upplýsinga. Í úrskurði upplýsingamála er bent á að afhendingarskyldir aðilar eigi að varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg og vernda þau fyrir ólöglegri eyðileggingu, breytingu og óleyfilegum aðgangi. Hins vegar nær úrskurðarvald nefndarinnar ekki til þessara ákvæða og því þyrfti að reka mál gegn Isavia vegna þessa fyrir almennum dómstólum.

Skaðabótagögn ef hún finnur misræmi

Aðalheiður segir fyrirtækið hafa fengið þrjá af tíu í einkunn fyrir fjárfestingar. Þar var m.a. litið til kostnaðar við uppbyggingu kaffihúss og viðhalds til sjö ára. Hún bendir á að Kaffitár hafi verið með sjö kaffihús í rekstri á þessum tíma og að nýjasta kaffihúsið hafi verið eins árs. Þá hafi hún verið með tvö kaffihús í Leifsstöð í tíu ár. „Mínar tölur voru því rauntölur og maður hefði haldið að ég hefði átt að skora mun hærra,“ segir hún og vísar aftur til þess að enginn rökstuðningur hafi verið fyrir þessari einkunn. „Þegar ég fæ gögnin get ég séð hvað hinir voru að bjóða og hvaða einkunn þeir fengu,“ segir hún.

„Ef við sjáum eitthvað misræmi er hugmyndin að fara í skaðabótamál,“ segir Aðalheiður. „Manni finnst bara blóðugt að taka þátt í opinberri samkeppni og fá engar upplýsingar,“ segir hún.

„Ef við hefðum verið að standa okkur illa og önnur fyrirtæki væru bara miklu flottari og betri þyrftum við bara að skoða reksturinn og bíta í það súra epli,“ segir Aðalheiður. „En við vorum nú þarna þegar flugstöðin var að fá verðlaun fyrir að vera besti flugvöllurinn í Evrópu. Við erum nú ekki verri en það,“ segir hún. 

Úrskurður frá 31. júlí

Úrskurður frá 15. maí

mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK