Fríhöfnin komin út fyrir efnið

FA óskar eftir afstöðu ráðuneytisins til pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar í Leifsstöð, …
FA óskar eftir afstöðu ráðuneytisins til pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar í Leifsstöð, svokallaðrar Express-þjónustu á netinu. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Félag atvinnurekenda hefur sent Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra erindi og óskað eftir að ráðuneytið upplýsi um afstöðu sína til pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar í Leifsstöð, svokallaðrar Express-þjónustu á netinu.

Í bréfi framkvæmdastjóra FA til fjármálaráðherra segir: „Fríhöfnin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur að undanförnu auglýst grimmt á netinu svokallaða „Express-þjónustu“, sem er í raun vefverslun þar sem hægt er að panta vörur án opinberra gjalda, fá þær afhentar í verslun Fríhafnarinnar og greiða þær þar. Viðskiptavinurinn getur valið hvort varan er afhent í brottfarar- eða komuverslun. Ekki verður séð að neitt komi í veg fyrir að sá sem pantar á netinu fái vini eða vandamenn sem eiga leið til útlanda til að sækja vörurnar fyrir sig.“

Í bréfinu segir að markaðsherferðir Fríhafnarinnar, þar sem vakin er athygli á þessari þjónustu, séu þáttur í afar óeðlilegri samkeppni ríkisins við verslunarfyrirtæki í landinu. Rekstur Fríhafnarinnar fari sífellt lengra út fyrir það sem teljast megi eðlileg skilgreining á „fríhafnarverslun fyrir ferðamenn“.

Rekstur komuverslunar, þar sem vörur eru seldar til nota innanlands án opinberra gjalda, sífellt meira vöruúrval og nú síðast pöntunarþjónusta á netinu séu dæmi um slíkt.

Ekki nauðsynlegt að fara úr landi

Tekið er undir ábendingar í Skoðun Viðskiptaráðs í nóvember síðastliðnum, um að „Express-þjónustan“ þýðir í raun að ekki sé nauðsynlegt að fara af landi brott til að kaupa vörur án opinberra gjalda; flestir eigi auðvelt með að finna einhvern til að sækja vörurnar á leið um flugstöðina.

Tekið var fyrir símasölu Fríhafnarinnar

FA rifjar upp að Fríhöfnin hefur áður boðið upp á sambærilega þjónustu. Í bréfinu til fjárálaráðherra segir:

„Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar var boðið upp á símasölu Fríhafnarinnar, þar sem fólk gat pantað vörur og látið sækja fyrir sig í Leifsstöð. Á þeim tíma ritaði Stefán S. Guðjónsson þáverandi framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, forvera Félags atvinnurekenda, Friðrik Sophussyni, þáverandi fjármálaráðherra, bréf og vakti athygli á þessum óeðlilegu vinnubrögðum Fríhafnarinnar.

Í bréfi Stefáns var vakin athygli á að sá sem pantaði vöruna þyrfti „aldrei að fara af landi brott sjálfur og sá sem sækir vöruna þarf ekki heldur að rogast með hana á sínu ferðalagi. Hann einfaldlega tekur vöruna á heimleiðinni og heldur á henni þá 30 metra sem eru frá innkomuverslun fríhafnarinnar og í gegnum tollinn.“

FA segir nákvæmlega það sama eiga við um „Express-þjónustuna“ sem Fríhöfnin býður nú upp á.

Á sínum tíma óskaði FÍS eftir því að ráðuneytið hlutaðist til um að Fríhöfnin léti af þessum vinnubrögðum. Svarbréf fjármálaráðherra barst daginn eftir og var skorinort: „Heimild til innflutnings á vörum án greiðslu aðflutningsgjalda er bundin við vörur til eigin nota fyrir ferðamenn og telur fjármálaráðuneytið að gera eigi kröfu um að þeir greiði sjálfir fyrir þær vörur sem þeir kaupa í fríhöfn og flytja til landsins.“ Í framhaldinu var tekið fyrir símasölu Fríhafnarinnar.“

Að lokum er spurt í bréfi Félags atvinnurekenda: „Hefur afstaða fjármálaráðuneytisins til slíkrar pöntunarþjónustu á vegum Fríhafnarinnar breytst? Ef ekki, til hvaða aðgerða hyggst ráðuneytið grípa?“

Erindi FA til fjármálaráðherra

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK