„Svarti mánudagurinn“ enn á ný

AFP

Algjör örvænting hefur ríkt á hlutabréfamörkuðum um allan heim í dag. Hlutabréfavísitölur hafa hríðfallið og kalla kínverskir ríkisfjölmiðlar daginn „svarta mánudaginn“.

Verðhrunið í dag minn­ir marga á svarta mánu­dag­inn svo­nefnda, 19. októ­ber 1987, þegar hluta­bréfa­markaðir um all­an heim hrundu. Hríðféllu hluta­bréfa­vísi­töl­ur í Banda­ríkj­un­um um 22,7% og í Bretlandi um 26,5%.

Ótti fjárfesta hefur einnig smitast til Íslands, þar sem hlutabréf allra skráðra félaga hafa lækkað í verði í dag.

Segja má að slæm tíðindi af efnahagsþróuninni í Kína hafi komið lækkunarhrinunni af stað. Hlutabréfavísitalan í Shanghai féll um 8,5% í nótt og hefur ekki lækkað svona mikið á einum degi frá því í febrúarmánuði árið 2007. Öll hækkunin sem hefur orðið á vísitölunni á árinu er orðin að engu - hún hefur þurrkast út.

Áhrifanna hefur gætt víðar en í Kína. FTSE Eurofirst 300 hlutabréfavísitalan í Evrópu lækkaði um 2,8% í morgun og FTSE 100 um 5,5%. Sú síðarnefnda hefur ekki verið í lægri gildum frá því í júní árið 2013.

Allar helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu hafa ekki lækkað eins mikið á mánaðargrundvelli frá því í október 2008, í fárviðri efnahagshrunsins.

Dax-hlutabréfavísitalan hefur lækkað um 5,7% og CAC 40 í Frakklandi um heil 7,2%. Dow Jones hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum hríðféll um 5,8% þegar markaðir opnuðu þar í landi eftir hádegi.

Inngripin engum árangri skilað

Fréttaskýrendur benda á að titringur hafi fyrst gert var við sig á hlutabréfamörkuðum fyrir um tveimur vikum, þegar kínversk yfirvöld ákváðu að fella gengi gjaldmiðils síns, júansins. Ástæðan var sú að kínverska hagkerfið hafði hægt á sér, þvert á það sem greinendur höfðu haldið fram, og var í mun verra standi en yfirvöld í landinu höfðu þorað að ímynda sér. Síðan þá hafa hlutabréfamarkaðir um allan heim verið í frjálsu falli.

Kínversk hlutabréf hafa lækkað mikið og hratt í verði frá því um miðjan júnímánuð. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir stjórnvalda í Bejing, sem hafa meðal annars keypt hlutabréf fyrir um 144 milljarða Bandaríkjdala, er hlutabréfamarkaðurinn enn á niðurleið. Inngrip þeirra hefur engum árangri skilað.

Lækkanirnar hafa verið sérstaklega miklar eftir að gengi júansins var fellt um miðjan mánuðinn. Gjaldmiðilinn dró niður með sér fjölda annarra gjaldmiðla í Asíu og nýmarkaðsríkjum. Sem dæmi hefur gengi malasíska ringgitsins og suður-afríska randsins ekki verið lægra gagnvart Bandaríkjadal í áraraðir.

Þá hefur verð á hrávörum lækkað skarpt að undanförnu. Vaxandi óvissa um efnahagsþróunina í Kína hefur til að mynda ýtt heimsmarkaðsverði á olíu enn lengra niður. Í síðustu viku lækkaði verð á Brent hráolíu um 7,2% og hefur fatið ekki verið ódýrara í sex ár.

Vonsviknir yfir aðgerðaleysi

Jim Reid, greinandi hjá Deutsche Bank, segir að ein af ástæðunum fyrir lækkunarhrinunni hafi upphaflega verið sú að fjárfestar bjuggust við því að Seðlabanki Bandaríkjanna myndi hækka stýrivexti sína, mögulega strax í næsta mánuði.

Hins vegar hefur hægagangurinn í Kína haft mun meiri afleiðingar í för með sér en fjármálagreinendur höfðu gert sér í hugarlund. Hann hefur gert vonda stöðu enn verri og alvarlegri. „Við héldum ávallt að eitthvað myndi koma í veg fyrir að Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði vexti sína í september og kannski erum við að sjá það núna,“ segir Reid.

Greinendur segja að fjárfestar hafi verið vonsviknir yfir aðgerðaleysi kínverskra yfirvalda um helgina. Þeir héldu að embættismenn í Bejing myndu bregðast við hlutabréfalækkununum í seinustu viku - vísitalan í Shanghai lækkaði þá um 11,5% - og reyna að róa fjárfesta. Sú varð ekki raunin.

Vaxtalækkun framundan?

Fjárfestar vonuðust til að mynda eftir því að stjórnvöld í Kína slökuðu á peningastefnu sinni, lækkuðu vexti og settu prentvélarnar í gang.

En kínversk yfirvöld virðast hafa metið stöðuna þannig að það væri of kostnaðarsamt að reyna að blása lífi í hlutabréfamarkaðinn, sérstaklega í ljósi þess að þau hafa nýlega gripið til örvæntingarfullra aðgerða til að koma í veg fyrir frekari styrkingu júansins.

Þau hafa þegar varið um 200 milljörðum dala til hlutabréfakaupa á seinustu sjö vikum, í viðleitni sinni til að halda eignaverði í landinu uppi.

Karishma Vaswani, fréttaritari breska ríkisútvarpsins í Asíu, segir að allir vilji vita hvernig kínversk yfirvöld muni bregðast við tíðindum dagsins. Hvernig þau muni reyna að efla tiltrú fjárfesta á hlutabréfamarkaðinum og sjálfu hagkerfi landsins.

Flestir veðji á að Seðlabanki Kína muni lækka vexti sína. Í raun óskuðu margir þess að það hefði verið gert strax um helgina. Þeim varð ekki að ósk sinni.

AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK