Icelandair tvöfaldar á þremur árum

Byggingin til vinstri er Thorvaldsensstræti 4 ( Gamla Landssímahúsið), þar …
Byggingin til vinstri er Thorvaldsensstræti 4 ( Gamla Landssímahúsið), þar sem nýtt hótel á vegum Icelandair verður standsett. mbl.is/Jim Smart

Ekkert hefur verið ákveðið um hvaða vörumerki muni verða á rekstri fyrirhugaðs hótels á gamla Landssímareitnum við Austurvöll. Icelandair hotels munu með þessu nýja hóteli ná að rúmlega tvöfalda hótelherbergjafjölda sinn frá því á síðasta ári til 2017 og þá verða fleiri herbergi í rekstri Icelandair í miðbænum en voru samtals á öllum hótelum í miðbænum um síðustu aldamót. 

Ekki ljóst hvaða vörumerki verður á hótelinu

Icelandair hotels, dótturfélag Icelandair group, skrifaði í dag undir leigusamning til 25 ára um rekstur á hóteli á reitnum, en í samtali við mbl.is segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair group, að fyrirtækið skoði alltaf möguleika á fleiri vörumerkjum en að hótelið verði undir merkjum Icelandair hotels.

Það er félagið Lindarvatn ehf. sem á húsið og lóðina, en Lindarvatn var alfarið í eigu Ólafs Björnssonar. Við undirritun nýja samningsins keypti Icelandair einnig 50% hlut í félaginu.

Stutt í að framkvæmdir hefjist

Björgólfur segir að ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um stjörnufjölda á nýja hótelinu. Fyrir liggur að fara þarf í breytingar á húsinu og segir Björgólfur að fyrir því liggi ákveðnar heimildir skipulagsyfirvalda. Þegar hann er spurður hvenær framkvæmdir muni hefjast segir hann það ekki enn orðið alveg ljóst, en að stutt sé í árið 2017, en þá er stefnt að því að hefja rekstur hótelsins.

Rúmlega tvöföldun á þremur árum

Icelandair hotels hafa að undanförnu staðið í mikilli hóteluppbyggingu í miðbænum og ekki sér fyrir endan á því. Gangi öll áform félagsins eftir fram til ársins 2017 mun félagið hafa rúmlega tvöfaldað hótelherbergjafjölda sinn í Reykjavík frá því á síðasta ári, eða á þremur árum.

Stærsta hótel samstæðunnar í Reykjavík er eftir sem áður Hótel Natura, gamla Loftleiðahótelið, en þar eru 220 herbergi. Hótel Marina við Reykjavíkurhöfn er í dag þeirra næst stærsta hótel með 147 herbergi. Þar af eru 39 herbergi sem opnuðu í vor þegar fyrri hluti stækkunar hótelsins varð klár.

Stækkun Marina hótelsins er í tveimur skrefum, sem fyrr segir opnuðu 39 herbergi í vor, en núna í haust er áformað að við bætist þrjár svítur í seinni hluta stækkunarinnar. Þá er áformað að opna nýtt 70-80 herbergja hótel í Hafnarstræti 17-19 á næsta ári og 115 herbergja hótel við Hverfisgötu sem gengur undir nafninu Canopy Reykja­vik, en það er hluti af Hilton keðjunni. Var fyrst áformað að opna það á þessu ári, en framkvæmdir hafa tafist og er nú gert ráð fyrir að það verði tekið í gagnið næsta vor.

Fleiri Icelandair herbergi 2017 en í öllum miðbænum um aldamótin

Gangi þessi áform öll eftir verða hótelherbergi í rekstri Icelandair hótela í miðbæ Reykjavíkur orðin 722 innan tveggja ára, en það eru fleiri hótelherbergi en voru miðsvæðis í Reykjavík um síðustu aldamót. Samkvæmt greiningu mbl.is á hótelmarkaðinum í fyrra voru hótelherbergi miðsvæðis í Reykjavík 3.275, en höfðu verið 706 um aldamótin. Var þá gert ráð fyrir að fjöldi þeirra væri orðinn 4.664 fyrir lok ársins 2017, miðað við þær fyriráætlanir sem höfðu verið kynntar opinberlega.

Canopy Reykjavík opnar á næsta ári á Hverfisgötu við Hljómalindarreitinn.
Canopy Reykjavík opnar á næsta ári á Hverfisgötu við Hljómalindarreitinn. Mynd/Arkþing arkitektar
Byggja á upp húsnæðið við Hafnarstræti 17-19 með svokölluðu straujárnslagi, …
Byggja á upp húsnæðið við Hafnarstræti 17-19 með svokölluðu straujárnslagi, en þar verður 70-80 herbergja hótel á vegum Icelandair hótela.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK