Efnafræði og brugg góð blanda

Ásta kynnti fyrirtækið fyrir fjárfestum á föstudaginn. Fyrir aftan hana …
Ásta kynnti fyrirtækið fyrir fjárfestum á föstudaginn. Fyrir aftan hana er mynd af henni og Sölva sem sá síðarnefndi teiknaði. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Þegar að Ásta Ósk Hlöðversdóttir og Sölvi Dúnn Snæbjörnsson kynntust fyrir um ári síðan kom í ljós að þau áttu sameiginlegt áhugamál; bjór. Í kjölfarið ákváðu þau að stofna brugghúsið HÚN|HANN og kynnti Ásta fyrirtækið á Fjárfestadegi Startup Reykjavík á föstudaginn.

HÚN|HANN er eitt þeirra tíu teyma sem val­in voru til þess að taka þátt í viðskipta­hraðlin­um Startup Reykja­vík sem fór fram á veg­um Ari­on banka og Klak Innovit í sum­ar og á föstudaginn fengu teym­in tæki­færi til þess að kynna hug­mynd­ir sín­ar fyr­ir mögu­leg­um fjár­fest­um.

Hvað er hinn fullkomni bjór?

Ásta Ósk er verkfræðingur sem kennir efna- og eðlisfræði en Sölvi starfar sem hönnuður. Síðustu sex árin hefur Ásta verið að prófa sig áfram með bjórbruggun og lært hvernig skal brugga gæðabjór. „Þegar við áttuðum okkur á því að við deildum sömu ástríðunni fyrir bjór vildum við sameina krafta okkar til þess að búa til hinn fullkomna bjór,“ sagði Ásta á kynningunni. En hvað er hinn fullkomni bjór?

Að sögn Ástu er hinn fullkomni bjór ekki einhver einn ákveðinn bjór heldur „áframhaldandi leit að nýjum og spennandi upplifununum. Við trúum því að með því að sameina kunnáttu okkar getum við búið til hágæða bjóra og endurskilgreint hvað bjór er.“

Ásta greindi frá því á föstudaginn að brugghúsið er nú þegar komið með húsnæði og bruggbúnað. Nú er bara beðið eftir síðustu leyfum frá yfirvöldum og þá er hægt að byrja að framleiða. Markmiðið er að kynna nýjan bjór í hverjum mánuði til þess að veita viðskiptavinunum stöðugt nýjar upplifanir. Ásta og Sölvi gera ráð fyrir því að fyrir bjórinn frá HÚN|HANN  verði fáanlegur á öldurhúsum landsins eftir tvo mánuði. Á næsta ári vilja þau hafa þróast í smábrugghús og er stefnt að útflutningi.

„Það er ekki vegna peninga heldur viljum við vera hluti af alþjóðlegu bjórsenunni,“ sagði Ásta á föstudaginn. „Við viljum fara á bjórhátíðir og starfa með öðrum bruggurum. Við viljum líka vera virt og eftirsótt af bjórelskendum um allan heim,“ sagði Ásta.„Skilaboð okkar til heimsins eru þessi, við tökum okkur ekki alvarlega en við tökum bjór alvarlega.“

„Ég vissi ekki að mér þætti bjór góður“

„Við komum hérna inn í Startup Reykjavík fyrir þremur mánuðum og hugsuðum „Hér erum við að fara að setja upp verksmiðjuna okkar og brugga og brugga“ en það sem hefur svo skemmtilegt við þetta prógram er að það hefur gefið okkur tækifæri til að þróa „brandið“ okkar, markaðssetninguna og allt sem því tengist og búa til fyrirtæki,“ segir Ásta í samtali við mbl.is.

„Núna erum við tilbúin að hleypa fyrirtækinu af stokkunum og höfum getað gefið okkur tíma til að hugsa hvert við viljum fara og hvað við viljum raunverulega gera.“

Hún segir að viðbrögðin við brugghúsinu hafi verið góð. „Fólk er í fyrsta lagi mjög spennt fyrir hönnuninni hans Sölva sem er mjög skemmtilegt. En við erum líka búin að vera að gefa fólki smá smakk og fólk hefur verið ánægt með það. Við höfum til dæmis fengið setninguna „Ég vissi ekki að mér þætti bjór góður“ sem var mjög áhugavert,“ segir Ásta.

Efnafræðin náskyld bruggi

Ásta segir að brugghúsið vinni með hefðbundin hráefni til bjórgerðar eins og malt, bygg, hafra, hveiti og humla. „En það sem við gerðum öðruvísi er að nýta okkur mjög flotta og bragðmikla humla og ólíkar gertegundir til að koma fram ólíkum stílum og bragði. Síðan erum við skoða ýmislegt annað sem við segjum frá seinna.“

Eins og fram hefur komið starfar Ásta sem efna- og eðlisfræðikennari. Hún segir efnafræðina náskylda bruggi. „Já þetta er alveg nátengt. Nemendur mínir mættu kannski njóta þess meira í tíma,“ segir Ásta og hlær en hún kennir við Háskólabrú Keilis.

Hún segir að næsta skref sé einfaldlega að koma bjórnum út. „Það er einmitt í vinnslu núna. Leyfið liggur inni hjá sýslumanni svo við getum komið bjórnum okkar út og vaxið smátt og smátt og orðið það sem við viljum. Auðvitað gerist það hraðar ef við fáum fjármagn en við erum ekki háð því. Bjórinn okkar kemur í verslanir hvort sem við fáum einhvern með okkur í það eða ekki.“

Boðið var upp á smakk.Sölvi hannar allt útlit brugghússins.
Boðið var upp á smakk.Sölvi hannar allt útlit brugghússins. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Ásta Ósk Hlöðversdóttir og Sölvi Dúnn Snæbjörnsson stofnuðu brugghúsið HÚN|HANN.
Ásta Ósk Hlöðversdóttir og Sölvi Dúnn Snæbjörnsson stofnuðu brugghúsið HÚN|HANN. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK