Láttu þér líða vel meðan þú flýgur

Geirþúður Alfreðsdóttir flugstjóri hefur tekið saman fróðleik um heilsuatriði tengd …
Geirþúður Alfreðsdóttir flugstjóri hefur tekið saman fróðleik um heilsuatriði tengd flugi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Geirþrúði Alfreðsdóttur er margt til lista lagt. Hún er ekki bara flugstjóri og vélaverkfræðingur heldur líka menntaður íþróttakennari.

Árið 2010 hafði hún frumkvæði að stofnun Heilsu- og vinnuverndarnefndar hjá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og það var upp úr því starfi að hugmyndin að upplýsingavefnum Fit To Fly (fittofly.com) kviknaði.

„Við héldum ráðstefnu árið 2012 þar sem fjallað var um heilbrigðismál fólks sem starfar í flugiðnaði. Þar kom fram margt fræðandi og gagnlegt og hvarflaði að mér að gaman gæti verið að gera fróðleikinn frá ráðstefnunni aðgengilegan á einum stað.“

Síðan þá hefur Geirþrúður byggt vefinn upp hægt og örugglega og fengið til liðs við sig sérfræðinga úr ýmsum áttum. Fit To Fly átti upphaflega að vera sniðinn að þörfum flugáhafna en færði fljótlega út kvíarnar og hefur núna einnig að geyma alls kyns fróðleik fyrir ferðalanga.

Þó að vefurinn hafi aðeins verið þrjá mánuði í loftinu hefur hann fengið mjög jákvæðar viðtökur hjá bæði fagfólki og almennum ferðamönnum. Farið er að nýta efnið við kennslu áhafna og benti ferðavefur CNN á vefinn í nýlegri grein. Jafnframt vefnum heldur Geirþrúður utan um Facebook-síðu þar sem hægt er að fá ábendingu um þegar nýjar greinar birtast, en slóðin er facebook.com/fittofly.is

Streita og röskun á svefni

Þó svo að flugfélögin geri allt sem í þeirra valdi stendur til að gera flugferðina sem þægilegasta fyrir farþega getur ferð með flugvél reynt á heilsuna, verið lýjandi og leitt til óþæginda. Eins verður að huga að örygginu þegar haldið er út í heim og fellur það hæglega undir heilsuþema Fit To Fly að minna fólk á að vera með réttar bólusetningar og ganga þannig frá greiðslukortunum að þau séu ekki öll á sama stað svo að fólk verði ekki aura- og bjargarlaust ef veskið hverfur.

„Flug getur raskað svefnvenjum fólks og það eitt að bíða í röð í innritun og við öryggisleitina getur valdið streitu og andlegu álagi. Er þá eftir að nefna flughræðslu, sem ég held að mjög stór hluti fólks glími við þó að færri vilji færa það í tal,“ segir Geirþrúður.

Það eitt að vera um borð í flugvél í nokkra tíma, jafnvel í þægilegustu sætunum á besta farrýminu, getur reynt á skrokkinn. Nefnir Geirþrúður að loftþrýstingurinn um borð geti verið eins og í rösklega tveggja km hæð yfir sjávarmáli og rakastig lágt. „Lítill loftþrýstingur getur valdið bólgu og bjúg og veita þarf líkamanum vökva til að vega upp á móti lágu rakastiginu.“

Þeir sem vinna um borð þurfa síðan t.d. að laga sig að þeirri röskun sem hlýst af vaktavinnu á öllum tímum sólarhringsins. Það fylgir starfi flugáhafna að oft getur verið erfitt að fá nægan svefn og þá þurfa þessar stéttir að vera meðvitaðar um áhrif geislunar á heilsuna, en flugáhafnir eru flokkaðar sem „geislastétt“. „Starfinu fylgir líka fjarvera frá fjölskyldunni og er t.d. á Fit To Fly grein sem fjallar sérstaklega um hvernig fjarveran getur komið illa við börnin á heimilinu og hvað má gera til að létta viðskilnaðinn,“ útskýrir Geirþrúður.

Vatn og sætisæfingar

Spurð hvaða ráð skipti mestu fyrir góða líðan í flugi nefnir Geirþrúður fyrst að fólk verði að vara sig á hreyfingarleysi. Ef þess er kostur er gott að standa upp endrum og sinnum, ganga stuttan spöl og koma blóðinu á hreyfingu. „En rýmið er oft af skornum skammti, ekki hægt að komast að ganginum í tíma og ótíma og vagnar, þjónustuliðar og aðrir farþegar á ferðinni. Er þá hægt að láta duga að gera æfingar í sætinu þar sem útlimirnir fá hreyfingu og teygt er á vöðvum.“

Geirþrúður leggur líka áherslu á að drekka nóg af vatni og forðast mat og drykk sem raskar vökvajafnvægi líkamans. Þannig er t.d. kaffi og áfengi vatnslosandi og ekki sniðugt að innbyrða mikið af saltríkum mat. „Að borða létta máltíð fyrir flug eða um borð getur líka bætt líðanina og ágætt að láta brasið í friði.“

Því miður reyna sumir að slá á flugkvíða með áfengi. Því fylgja ýmsar hættur enda gerir áfengið líkamanum ekki gott og sá möguleiki er alltaf til staðar að áfengisvíman leiði til óæskilegrar hegðunar. Enginn vill heldur lenda í nýju og framandi landi óskýr í hugsun. „Fólk ætti að muna að það er fullkomlega eðlilegt og ekkert að óttast þó að smá hristingur komi á flugvélina endrum og sinnum. En ef kvíðinn gerir vart við sig má til dæmis reyna að hlusta á góða og rólega tónlist eða gera slökunaræfingar. Áfengi er alls ekki góð leið til að fást við flughræðslu.“

Loks segir Geirþrúður áríðandi að gefa sér góðan tíma. Pakka með góðum fyrirvara, ganga úr skugga um að allt sé á sínum stað og ekkert vanti, og leggja svo snemma af stað út á flugvöll. „Að geta gefið sér góðan tíma á flugvellinu minnkar álagið til muna og gerir upphafið að ferðalaginu mun ánægjulegra.“

Bið á flugvöllum getur tekið á.
Bið á flugvöllum getur tekið á. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK