Ekki hægt að „valsa“ um hótelið

Bláa lónið eftir framkvæmdir.
Bláa lónið eftir framkvæmdir.

Framkvæmdir við fimm stjörnu hótel Bláa lónsins eru í fullum gangi og jarðvegsvinnu er lokið. Hótelið á að verða hið glæsilegasta en forvitnir munu þó ekki geta litið dýrðina augum þar sem aðgengi verður takmarkað við gesti.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir framkvæmdir vera nokkurn veginn á áætlun en stefnt er að opnun hótelsins á vormánuðum 2017. Hann segir töfina í mesta lagi nema nokkrum vikum sem litlu máli skipti í stóra samhenginu og telur það vera gott miðað við erfiðan vetur.

Hótelið verður fyrsta fimm stjörnu hótel landsins og er markhópurinn betur borgandi ferðamenn. Eðli málsins samkvæmt verður því allur útbúnaður í hæsta klassa. Herbergin verða rúmlega sextíu talsins og þar á meðal nokkrar svítur. Grímur segir að hótelið komi til með að standast allan alþjóðlegan samanburð og telur að Bláa lónið muni öðlast enn sterkari stöðu á heimsvísu.

Standa vörð um einkalíf gesta

Grímur segir nauðsynlegt að standa vörð um einkalíf hótelgesta. Því verður aðeins ein akstursaðkoma að hótelinu með takmörkuðu aðgengi. Aðrir en gestir munu því ekki eiga kost á að fara þar inn. „Menn munu ekki geta valsað þarna um til að skoða og spekúlera. Hótelið verður bara fyrir hótelgesti,“ segir Grímur. „Ef maður ætlar að veita þjónustu af þessu tagi verður hún að standa undir nafni,“ segir hann.

Þrátt fyrir að aðkoma að akstursleiðinni verði takmörkuð verður hótelið ekki girt af með öðrum hætti. Hann segir hraunið vera náttúrulega hindrun þar sem hótelið er niðurgrafið. „Hraunið er svo úfið og illfært að það er í raun og veru ekki nema fyrir fuglinn fljúgandi að fara þarna um,“ segir Grímur.

Auk framkvæmda við hótelið er einnig verið að stækka og breyta upplifunarsvæðinu í Lóninu auk þess að koma upp nýjum veitingastað. Grímur segir að veitingastaðurinn verði í tengibyggingu milli hótelsins og núverandi mannvirkja þannig að bæði verði hægt að ganga þar inn frá hótelinu og Bláa lóninu.

Byrja innanhúss í lok næsta sumars

Gert er ráð fyrir að hægt verði að hefja framkvæmdir innanhús í lok sumars eða upphafi hausts 2016 en þá verður mannvirkið líklega risið. Grímur bendir þó á að byggingin fari þannig fram að byrjað sé á ystu endum og byggt inn að miðju. Því er hægt að hefja framkvæmdir innanhús á öðrum enda og klára þær.

Grímur ítrekar að nýja hótelið muni falla vel að umhverfinu en byggingarreiturinn er þröngur þar sem reynt var að skerða hraunið ekki meira en bráð nauðsyn stóð til. 

Heildarkostnaður vegna framkvæmdanna nemur um sex milljörðum króna.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK