Leggur til uppskiptingu Landsbankans

Landsbankanum mætti skipta upp segir ráðgjafi Capacent.
Landsbankanum mætti skipta upp segir ráðgjafi Capacent. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þar sem bankakerfið er nú að stórum hluta í eigu ríkisins er einstakt tækifæri til að
endurskipuleggja fjármálakerfið þar sem kerfið leitar annars sjálfkrafa í fákeppnisrekstur. Ekki er við bankana að sakast í þeim efnum því þeir hafa að markmiði að hámarka hagnað og skilvirkni rekstrar. Fákeppninni fylgja hins vegar óhjákvæmilegir hagsmunaárekstrar.

Þetta kemur fram í grein Snorra Jakobssonar, ráðgjafa hjá Capacent, sem nefnist: „Íslenskt bankakerfi til framtíðar.“

Í greininni segir að núverandi skipun bankakerfisins sé ekki náttúrulögmál því vel megi aðskilja einingar frá rekstri viðskiptabankanna. Slík uppskipting þyrfti ekki endilega að koma niður á skilvirkni rekstrar og væri til þess fallin að auka samkeppni, segir Snorri og nefnir sem dæmi að hæglega mætti skipta Landsbanka upp í þrjár einingar, viðskiptabanka sem þjónar einstaklingum og smærri fyrirtækjum, fjárfestingar- og fyrirtækjabanka og eignastýringarfyrirtæki.

Viðskiptabanki í ríkiseigu

Viðskiptabankinn, sem gæti verið í ríkiseigu að hluta eða öllu leyti, myndi þá einbeita sér að viðskiptum við einstaklinga og minni fyrirtæki á öllu landinu.

Framangreindur banki myndi taka yfir öll lán Landsbankans til einstaklinga, lán til smærri fyrirtækja og útibúanet Landsbankans og væri heildarstærð um 425 milljarðar króna og með eigið fé um 75 milljarða. „Bankinn væri nógu stór til að geta veitt hinum viðskiptabönkunum samkeppni og vera lífvænlegur til framtíðar,“ skrifar Snorri.

Með uppskiptingu Landsbankans yrði einnig til öflugur fyrirtækjabanki sem tæki við þorra eigna Landsbankans og yrði með 700 milljarða króna heildareignir og 150 milljarða í eigið fé.

Sá banki myndi sérhæfa sig í útlánum og þjónustu við fyrirtæki. Kostnaðarhlutfall ætti að vera hagstætt þar sem útibúanet væri ekki til staðar og fjárhæð eigna á bak við hvern starfsmann hærri þar sem starfsemin væri líkari heildsölubanka. Snorri bendir á að eftir því sem meiri eignir eru á bak við hvern starfsmann sé vaxtamunur lægri. Fyrirtækjabankinn ætti því að geta boðið upp á hagstæða innláns- og útlánsvexti og skilað eigendum hagnaði.

Aukin arðsemi

Snorri segir að kerfislægt mikilvægi nýstofnaðra banka væri minna en Landsbankans og því gæti uppskipting leitt til lægri kröfu um eiginfjárhlutfall og aukið þ.a.l. arðsemi. Nýstofnaður fyrirtækjabanki væri þá einnig auðveldari í sölu en eigið fé væri um 150 milljarðar króna í stað um 250 milljarða króna. Fyrirtækjabankinn og eignastýringarfyrirtækið væru að öllu leyti í einkaeigu í dæmi Snorra.

„Pólitískur vilji og samstaða þarf þó að vera til staðar til að slíkt sé framkvæmanlegt,“ skrifar Snorri.

Þá telur hann það heppilegra ef eignarhlutur ríkisins myndi einskorðist við hluta bankamarkaðar sem snýr aðeins að inn- og útlánum til einstaklinga og smærri fyrirtækja fremur en ríkið sé meirihlutaeigandi í viðskiptabanka sem væri starfandi á öllum sviðum fjármálamarkaðar.

Snorri Jakobsson.
Snorri Jakobsson. Valdís Þórðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK