Snýst ekki bara um fallegt útlit

Pétur Orri Sæmundsen, framkvæmdastjóri Kolibri.
Pétur Orri Sæmundsen, framkvæmdastjóri Kolibri. Eggert Jóhannesson

Áhugaverð þróun er í gangi hjá stórfyrirtækjum úti í heimi, líkt og hjá Apple, Google og Pepsi, þar farið er að koma hönnuðum fyrir í framkvæmdastjórn fyrirtækja. Þannig geta þeir haft áhrif á vöruþróun frá fyrsta uppkasti hugmyndar og drifið vinnuna áfram. 

Þetta sagði Pétur Orri Sæmundsen, framkvæmdastjóri Kolibri, á hádegisfundi SUT - Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, sem fór fram í Gamla bíó í dag. Yfirskrift fundarins var: „Er tæknifólk skapandi?“ Kolibri er hugbúnaðarfyrirtæki sem hefur hannað hugbúnaðarlausnir fyrir mörg stærstu fyrirtæki landsins líkt og t.d. Nova, Já, 66° Norður og Össur.

Kolibri varð til í fyrra í núverandi mynd við sameiningu tveggja fyrirtækja; hugbúnaðarfyrirtækisins Spretts og hönnunarstúdíósins Form5.

Hönnuður alltaf skrefi á undan

Pétur segir að á fyrstu árum fyrirtækisins hafi tekjurnar aðallega stafað frá ráðgjöf þar sem öðrum fyrirtækjum var kennt að vinna í þverfaglegum teymum. „Frá 2012 til 2014 leiddi ég um sextíu teymi en í þeim sat aldrei hönnuður,“ sagði hann. „Hönnuður var hugsanlega á hliðarlínunni og sendi myndir og útlitinu var klína á vöruna eftirá.“

Pétur segir miklar breytingar hafa átt sér stað í samvinnu hönnuða og tæknigeirans á liðnum árum þar sem hönnuðir hafa fengið aukið vægi. „Ég ætla aldrei aftur að vinna í fyrirtæki þar sem ekki eru hönnuðir,“ sagði Pétur og benti á að hlutverk þeirra fælist ekki eingöngu í að hanna fallegt útlit heldur einnig að skilgreina hvernig hlutir eigi að virka. „Hönnuðurinn er alltaf skrefi á undan forriturum. Þannig komumst við hraðar og fáum betri vöru.“

Gætir að fleiri sjónarmiðum 

Dóra Ísleifsdóttir, fagstjóri við Listaháskóla Íslands, tekur í sama streng og segir það vera hlutverk hönnuðarins að gæta að sjónarmiðum viðskiptavina viðskiptavinarins. „Ég held að það verði alltaf hagsbót allra að leggja það í hendur allra þeirra sem hafa þekkingu á einhverju sviði að stýra og leiða hlutina í rétta átt,“ sagði hún.

Samtök upplýsingatæknifyrirtækja munu standa fyrir hádegisverðafundum þriðja hvern fimmtudag í vetur í Gamla bíó. Félagið er starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins sem vinnur að því að skapa umhverfi fyrir skapandi fólk. Í upphafi fundarins sagði Haukur Hannesson, formaður félagsins, að eitt af markmiðum hópsins væri að fá almenning til þess að skilja virði upplýsingatækninnar og að beina sjónum að örum vexti greinarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK