Lundabúðir mala gull

Eigandi ferðamannabúðar segir sölutekjur fylgja fjölgun gistinátta nokkuð stöðugt.
Eigandi ferðamannabúðar segir sölutekjur fylgja fjölgun gistinátta nokkuð stöðugt. Styrmir Kári

Túristum fjölgar og túristabúðum einnig. Flestir hafa tekið eftir því. En hvernig gengur lundabúðunum svokölluðu og eru túristarnir að skila sér þar inn til þess að kaupa bangsa, lopapeysu eða bol sem kennir viðkomandi að bera fram orðið „Eyjafjallajökull?“.

Á fundi Greiningardeildar Arion á dögunum um horfurnar í ferðaþjónustu kom fram að skráðum fyrirtækjum tengdum ferðaþjónustu á einn eða annan hátt hefur fjölgað gríðarlega mikið á síðustu árum.

Gríðarleg fjölgun

Í flokkum tengdum greininni hefur fjölgunin yfirleitt verið vel umfram almenna 16 prósent fjölgun fyrirtækja frá 2008. Mest hefur ferðaskrifstofum og – skipuleggjendum fjölgað eða um nærri fimm hundruð. Þessi gríðarlega fjölgun gæti að miklu leyti skýrst af því að þarna falla undir lítil fyrirtæki og einyrkjar.

Hlutfallslega er þó mesta fjölgunin í annarri smásölu, eða 200 prósent, en undir þann fyrirtækjaflokk falla svokallaðar „lundabúðir“.

Samkvæmt ársreikningum nokkurra ferðamannaverslana virðist sem hagnaður flestra þeirra sé að aukast.

How do you spell „Eyjafjallajökull“?

Bolasmiðjan ehf. rekur heildsölu sem selur minjagripi s.s. boli, könnur, segla, glasamottur, tuskudýr o.fl. Helstu viðskiptavinir þeirra eru; Lundinn, Íslandia, Rammagerðin, Bláa lónið, Iða, Mál & menning, Perlan, Jarðböðin við Mývatn, Dimmuborgir, Goðafossveitingar o.fl.

Þá rekur félagið einnig þrjár verslanir Dogma, Ísbjörninn á Laugavegi, Woolcano og „Ég tala ekki íslensku“ á Skólavörðustíg 1a.

Í ársreikningi félagsins er greint frá 476 milljóna króna sölutekjum og nemur vöxturinn 15 prósentum milli ára. Hagnaðurinn nemur 37,5 milljónum króna samanborið við 30,3 milljónir árið áður. Þrjátíu milljóna króna arður var greiddur til eigenda félagsins, sem eru fjórir talsins.

Fríhöfnin skiptir sköpum

Rammagerðin rekur tvær ferðamannaverslanir í miðbænum, eina á Akureyri og aðra í fríhöfninni. Félagið er alfarið í eigu Sjóklæðagerðarinnar, eiganda 66°N. 

Þar var vöxturinn minni milli ára. Hagnaður ársins 2014 nam 13,2 milljónum króna samanborið við 12,1 milljónir árið 2013. 

Annað félag í 100% eigu Sjóklæðagerðarinnar er Miðnesheiði ehf., sem heldur utan um rekstur verslana 66°N og Rammagerðarinnar í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ljóst er að eftir miklu er að sækjast með gjafavörur í fríhöfninni, enda farþegum sífellt að fjölga, þar sem hagnaðurinn á síðasta ári nam alls 182,5 milljónum króna samanborið við 160 milljónir króna árið áður. 

Verslunin Drífa þurfti að pakka saman í fríhöfninni eftir útboð á verslunarrými í flugstöðinni á síðasta ári. Drífa er í eigu Icewear og selur fatnað og minjagripi. Hagnaður fyrirtækisins nam 97 milljónum króna á síðasta ári og hefur verið nokkuð stöðugur á síðustu árum, í kringum níutíu milljónir króna.

Ljóst er þó að brotthvarf verslunarinnar úr fríhöfninni mun einhver áhrif hafa á reksturinn þar sem reiknað var með 903 milljóna króna hagnaði frá Leifsstöð á næstu fjórum árum, eða sem jafngildir 225 milljónum króna á ári. Þetta kemur fram í stefnu fyrirtækisins á hendur Isavia þar sem farið var fram á bætur er jafngiltu töpuðum hagnaði. 

Fylgir fjölgun gistinátta

Ferðamenn eru einnig helsti markhópur verslunarinnar Nordic Store sem heldur bæði úti netverslun og búð við Lækjargötu. Þar er staðan hins vegar önnur, þar sem hagnaður helmingaðist milli ára og nam 22,9 milljónum króna samanborið við 46,3 milljónir árið áður.

Spurður um samdráttinn bendir Bjarni Jónsson, eigandi fyrirtækisins, á að mismuninn megi rekja til einskiptisliða í bókhaldinu. Hann segir söluna á síðustu árum hafa fylgt fjölgun gistinótta á höfuðborgarsvæðinu nokkuð stöðugt.

Hagstofan greindi frá því í morgun að gistinótt­um á hót­el­um á Íslandi hefði fjölgað í ág­úst og var nýt­ing­in á hót­el­her­bergj­um 85% í mánuðinum, sem er betra en í stórborgum á borð við París og London. Gist­inæt­ur á hót­el­um í ág­úst voru 336.700 sem er sautján prósent aukn­ing miðað við ág­úst 2014.

Líkt og fram hefur komið er þá gert ráð fyrir að ferðamönn­um muni fjölga um 27,5% á ár­inu og reiknað er með að þeir verði tvær millj­ón­ir árið 2018.

Svokallaðar lundabúðir falla undir aðra smásölu.
Svokallaðar lundabúðir falla undir aðra smásölu.
Lundavarningur
Lundavarningur Styrmir Kári
Túristar á Íslandi, líkt og annars staðar, kaupa gjarnan minningar …
Túristar á Íslandi, líkt og annars staðar, kaupa gjarnan minningar frá ferðinni.
Verslunarrými í flugstöðinni skiptir miklu máli fyrir túristaverslanir.
Verslunarrými í flugstöðinni skiptir miklu máli fyrir túristaverslanir. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK