Íslandsbanki ekki seldur á árinu

Íslandsbanki að Kirkjusandi
Íslandsbanki að Kirkjusandi mbl.is/Ómar

„Það eru engar líkur til þess að Íslandsbanki verði seldur á árinu, enda er öll áhersla slitastjórnarinnar nú á því að ljúka nauðasamningi fyrir áramót,“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, í samtali við Viðskiptamoggann. Hún bendir á að forsendur hafi breyst þegar lög um stöðugleikaskatt voru kynnt opinberlega 8. júní síðastliðinn.

„Þegar skilyrðin fyrir nauðasamningum og hinu svokallaða stöðugleikaframlagi voru kynnt var strax ljóst að tímaramminn sem okkur var settur er mjög knappur. Nú eru tæpir þrír mánuðir fram að áramótum og því ljóst að áherslan liggur á nauðasamningnum en ekki öðrum þáttum er varða uppgjör búsins,“ bætir Steinunn við.

Minni líkur á erlendu eignarhaldi

„Tímaramminn sem Alþingi setti slitabúunum með fyrrnefndri lagasetningu setti söluþreifingar á ís en sé litið nokkur ár aftur í tímann er ljóst að við skoðuðum ýmsa möguleika með Íslandsbanka, meðal annars hvort rétt væri að fara með hann á markað eða selja í heilu lagi. Við fundum sannarlega fyrir áhuga á bankanum en það er alveg ljóst að gjaldeyrishöftin hafa sett mikið strik í reikninginn. Þau hafa einfaldlega dregið úr möguleikum á að fá erlent eignarhald að bankanum.“

Steinunn segir að þó að nauðasamningsgerðin hafi sett söluþreifingar á ís þá kunni samningarnir að koma málum í réttan farveg í kjölfarið.

„Með þeim breytingum sem nú eru í farvatninu í tengslum við nauðasamningana eru líkur til að staða mála breytist, þar á meðal sú sem lýtur að gjaldeyrishöftunum og það mun vonandi leiða til þess að fleiri kostir verði á borðinu hvað varðar framtíðareignarhald á bankanum.“

Í lok júní á þessu ári nam bókfært eigið fé bankans rúmum 187 milljörðum króna en íslenska ríkið á um 5% hlutafjár á móti eignarhlut Glitnis.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK