Áætlun gegn skattaskipulagningu

Angel Gurria, framkvæmdastjóri OECD, á fundi G20 ríkjanna nú um …
Angel Gurria, framkvæmdastjóri OECD, á fundi G20 ríkjanna nú um helgina. AFP

Leiðtogar G20 ríkjanna og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hafa kynnt lokaskýrslu þar sem horft er til aðgerða til að koma í veg fyrir aðgerðir gegn rýrnun skattstofns og tilfærslu hagnaðar (oft nefnt skattalegt hagræði). Áætlunin kallast BEPS og hófst vinna við hana 2013, en gert er ráð fyrir að samningur verði undirritaður á næsta ári. Sjónum er aðallega beint að alþjóðlegum fyrirtækjum þar sem skattaskipulagningu er beitt til að draga úr skattgreiðslum t.d. með því að nýta sér glufur í mismunandi skattalöggjöf einstakra ríkja í samspili við tvísköttunarsamninga. Þannig flyst hagnaður frá háskattasvæðum til lágskattasvæða og er ekki skattlagður þar sem hagnaðurinn myndast í raun.

Í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að BEPS-aðgerðaáætlunin skiptist í 15 hluta. Tillögurnar sem kynntar eru í lokaskýrslunni snúa ýmist að innanlandslöggjöf ríkja og/eða breytingum á orðalagi tvísköttunarsamninga. Þar má nefna breytingar á upplýsingagjöf milli landa í tengslum við milliverðlagningu (e. transfer pricing) sem lúta að því að skattyfirvöld munu í fyrsta sinn geta fengið heildarmynd af starfsemi stórra alþjóðlegra fyrirtækja í stað þess að hafa eingöngu aðgang að upplýsingum sem lúta að starfseminni í þeirra eigin ríki.

Lagðar eru til breytingar á orðalagi tvísköttunarsamninga til að koma í veg fyrir misnotkun á þeim og misbeitingu á notkun eignarhaldsfélaga í skattalegum tilgangi. Í þessu sambandi er sérstaklega horft til skattaframkvæmdar á sviði hugverkaréttar og reglna um skattlagningu rafræna hagkerfisins. Skipst verður á upplýsingum um bindandi álit og betrumbættar verða aðferðir til að komast að samkomulagi þegar ágreiningur er milli ríkja um skattlagningarrétt.

Í BEPS-aðgerðaáætluninni eru einnig lagðar fram endurskoðaðar leiðbeiningar á reglum um milliverðlagningu sem vinna gegn notkun svokallaðra „cash boxes“ sem sett eru upp í því skyni að koma hagnaði fyrir í lágskattaríkjum. Hugtakið „raunverulegur eigandi“ er endurskilgreint til að koma í veg fyrir skattaskipulagningu sem hefur það markmið að komast hjá því að starfsemi fyrirtækis/félags teljist vera skattskyld með því að beita skilgreiningum sem eiga ekki lengur við. 

Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis mun fara fram vinna við að kanna hvernig niðurstöður skýrslu OECD samræmast íslenskri skattalöggjöf og hvar úrbóta kann að vera þörf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK