Djammtúrisminn að springa út

Egill Fannar og Daníel Arnar hafa boðið upp á djammferðir …
Egill Fannar og Daníel Arnar hafa boðið upp á djammferðir um Reykjavík undanfarin tvö ár. Eva Björk Ægisdóttir

Undanfarin tvö ár hafa félagarnir Egill Fannar Halldórsson og Daníel Andri Pétursson staðið á bak við svokallað kráarrölt þar sem þeir leiða ferðamenn í gegnum næturlíf Reykjavíkurborgar og kynna þá fyrir helstu öldurhúsum og skemmtistöðum. Í dag er þessi iðja full vinna hjá þeim báðum auk þess sem þeir hafa þurft að fá fleiri djammsérfræðinga til liðs við sig þegar mest er að gera. Undanfarið hafa þeir verið að þróa svipaða hugmynd fyrir matgæðinga og ætla að leggja áherslu á það á komandi misserum.

Ferðamenn voru alltaf að spyrja hvert þeir ættu að fara

„Við byrjuðum aðallega með djammtúrisma, en þetta eru ekki lengur bara djammtúrar,“ segir Egill í samtali við mbl.is þegar hann er spurður út í hvers konar þjónustu fyrirtækið þeirra, Wake up Reykjavík, bjóði. Hann og Daníel hófu starfsemi fyrir um tveimur árum, en þeir höfðu áður verið skólafélagar í Menntaskólanum við Sund.

Egill segir að þeir hafi unnið á skemmtistað og veitingastað og tekið eftir því að allir ferðamenn voru að spyrja starfsfólkið hvert þeir ættu að fara til að skemmta sér. „Við sáum að djammtúrar voru rosalega stórt fyrirbæri í öllum stórborgum heims og markaðurinn var varla til hér. Svo var túrisminn að springa hér,“ segir Egill um ástæður þess að þeir ákváðu að byrja í þessu.

Ef við værum djammarar gengi þetta ekki

Þeir byrjuðu með fyrirtækið samhliða námi og svo samhliða annarri vinnu, en Egill segir að fyrir hálfu ári hafi þeir ákveðið að hella sér að fullum krafti út í reksturinn. „Við ákváðum frá byrjun að taka þessu mjög alvarlega. Ef við værum djammarar og alltaf sjálfir að djamma gengi þetta ekki,“ segir Egill.

Hann segir að fólk haldi oft að þeir séu bara að skemmta sér í vinnunni og að þeir geti verið að slæpast í vinnunni. Svo sé þó alls ekki og þeir hafi unnið í þessu allavega 8 tíma á sólarhring undanfarið hálft ár í þessu og gríðarleg vinna sé að halda utan um starfsemina.

Voru varaðir við í upphafi

Í upphafi fengu þeir mörg varnaðarorð úr hinum ýmsu áttum að sögn Egils, en hann sagði fáa hafa trú á því að djammtúrar gætu borgað sig hér á landi. Einhverjir hefðu reynt þetta áður en ekki gengið upp. Reynsla þeirra hafi aftur á móti verið að þetta standi vel undir sér og segir Egill að þeir tveir lifi ágætlega á rekstrinum í dag.

Fyrirtækið býður upp á þrjá mismunandi djammferðir, en það eru hefðbundnar krárgöngur sem eru bæði fyrir einkahópa og opnar fyrir alla  á föstudögum. Þá taka þeir að sér umgjörð í kringum steggjahópa og að lokum halda þeir snekkjupartí. Í seinni tilvikunum tveimur er aðeins um að ræða einkahópa.

Matarferðir sækja í sig veðrið

Undanfarið hafa þeir svo verið að þróa áfram matarferð um Reykjavík, en það er rúmlega þriggja tíma skoðunarferð um Reykjavík sem felur í sér að stoppa og nokkrum stöðum og smakka átta mismunandi rétti. Egill segir að þeir hafi ákveðið að taka út súrmatinn og annað sem ferðamönnum þyki líklegast ekki spennandi matur, en haldið eftir góðum og áhugaverðum mat. Nefnir hann t.d. í því sambandi rúgbrauðsís sem fólk fái að gæða sér á.

Matarferðirnar njóta aukinna vinsælda að sögn Egils og segir hann að þeir geri ráð fyrir að á næsta ári muni þær stækka til muna.

Ferðaþjónusta sem fer stækkandi

Í sumar og haust hafa þeir verið með um 3-5 ferðir að meðaltali á viku og segir Egill að þeir eigi von á að sá fjöldi verði svipaður yfir veturinn. Næsta sumar horfi þeir svo fram á auknar vinsældir, en það taki alltaf talsverðan tíma fyrir ferðaþjónustufyrirtæki eins og þeirra að fá fyrstu viðskiptavinina og gagnrýni á ferðamannasíðum.

Segir hann að markaðurinn fyrir þessa tegund af ferðmennsku fari klárlega stækkandi hér á landi og þá hjálpi til að Reykjavík sé nokkuð þekkt fyrir öflugt skemmtanalíf. Til viðbótar sé flóra skemmtistaða að aukast til muna, bæði séu staðirnir orðnir fleiri og einnig fjölbreyttari. Þetta búi til mikla samkeppni sem geri umhverfið allt mjög spennandi og skemmtilegt að sögn Egils.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK