Föllnu bankanir: „Vandinn leystur“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á fundinum í Hannesarholti í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á fundinum í Hannesarholti í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Neikvæðum greiðslujafnaðaráhrifum af uppgjöri slitabúa föllnu bankanna verður algjörlega eytt með mótvægisaðgerðum og gott betur þar sem gert er ráð fyrir 40 milljarða afgangi. Uppgjörið á ekki að hafa áhrif á gengi krónunnar. 

Reiknað er með að skuldastaða ríkissjóðs muni batna og verða sú besta síðan á síldarárunum á sjöunda áratug síðustu aldar; þegar enginn vildi veita Íslensdingum lán og gjaldeyrisforðinn var sterkur.

Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á blaðamannafundi sem fjármála- og efnahagsráðherra boðaði til í dag. Á fundinum voru kynntar niðurstöður Seðlabanka Íslands á efnahagslegum áhrifum undanþágubeiðna slitastjóra föllnu bankanna. 

Málið var kynnt í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun og í kjölfarið var málið svo kynnt í þingflokkum.

SÍ samþykkir samningsdrög

Seðlabankinn hefur nú lokið mati sínu á fyrirliggjandi drögum að nauðasamningum. Það er mat bankans að drögin uppfylli kröfur laga um gjaldeyrismál um að efndir nauðasamninganna ásamt fyrirhuguðum mótvægisráðstöfunum leiði hvorki til óstöðugleika í gengis- og peningamálum né raski fjármálastöðugleika.

Samtals nema orðnar og fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir auk innlendra eigna, sem varðar eru með erlendum eignum, 856 milljörðum króna, sem er 41 milljarði meira en sem nemur eignum slitabúanna sem ógna greiðslujöfnuði.

Þar af nema fyrirhugaðar mótvægisaðgerði u.þ.b. 660 milljörðum króna, en gætu þó orðið umfangsmeiri, ef lágt metnar eignir reynast verðmætari.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagðist á fundinum gera ráð fyrir að veita slitabúunum viðbótarfresti til þess að fara nauðasamninaleiðina með greiðslu stöðugleikaframlags en samkvæmt núverandi fyrirkomulagi hafa þau einungis frest til áramóta og er tíminn því afar knappur.

Bjarni sagðist hafa áhyggjur af því að dómstólarnir yrðu annars settir í tímaþrög.

Því hefur verið lögð fram lagabreytingartillaga á þingi sem veitir slitabúunum frest til 15. mars til að ljúka sínum málum.

Nú þegar Seðlabankinn og efnahags- og viðskiptanefnd hafa í rauninni veitt samþykki sitt er málið í höndum slitabúanna sem þurfa að greiða atkvæði um nauðasamningana áður en þeir verða lagðir fyrir héraðsdóm.

Skuldir lækka

Í greinargerð sem hefur verið birt á heimasíðu Seðlabanka Íslands segir að hrein skuldastaða Íslands muni batna verulega í kjölfar uppgjörs á grundvelli stöðugleikaskilyrða.

Hreinar erlendar skuldir eiga að lækka um 3.740 milljarða króna og undirliggjandi erlend staða batna um 360 milljarða króna beint vegna slitanna, en þegar tekið er tillit til annarra þátta og vaxtar nafnvirðis landsframleiðslu, er gert ráð fyrir að skuldastaðan fari úr tæplega þriðjungi af landsframleiðslu á þessu ári niður fyrir 10% í lok næsta árs.

Þá er ekki búið að taka með í reikninginn lækkun skuldastöðunnar sem mun verða vegna fyrirhugaðs útboðs aflandskróna en ekki er þó hægt að segja til um hversu mikil hún verður. Jafn hagstæð skuldastaða gagnvart útlöndum hefur ekki þekkst í áratugi.

Gjaldeyrisforðinn styrkist og afgangur myndast

Gjaldeyrisforðinn á þá að styrkjast á næstu árum vegna endurfjármögnunar búanna á fyrirgreiðslu Seðlabankans og ríkisins til nýju viðskiptabankana og gjaldeyrisendurheimtna ESÍ.

Á móti kemur nokkurt útstreymi vegna krónueigna sem skipt er í erlendan gjaldeyri. Heildaráhrifin á gjaldeyrisforða vegna þessara þátta eru metin jákvæð um rúma 40 milljarða króna.

Svona er stöðugleikaframlagið:

Stöðugleikaframlag búanna nemur alls tæplega 379 milljörðum króna og skiptist á þennan hátt: Stöðugleikaframlag Glitnis hf. nemur 229 milljörðum króna, Kaupþings hf. um 127 milljörðum króna og LBI 23 milljörðum króna.

Ráðstöfun krónueigna innanlands í skatta, kostnað og fleira nemur 46 milljörðum en slík ráðstöfun hefur ekki neikvæð áhrif á fjármagnsjöfnuð. Skuldalengingar og uppgreiðsla lánafyrirgreiðslu nema samtals 151 milljarði og þá nema endurheimtur núverandi krafna í eigu ESÍ 81 milljarði króna. 

Saman gerir þetta um 660 milljarða króna, líkt og áður segir.

Fréttin verður uppfærð.

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, á fundinum í Hannesarholti í dag.
Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, á fundinum í Hannesarholti í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK