Skoða samfélagsmiðla við ráðningar

Mannauðsstjórar skoða umsækjendur á samfélagsmiðlum.
Mannauðsstjórar skoða umsækjendur á samfélagsmiðlum. mbl.is/Ernir

Íslenskir mannauðsstjórar nota samfélagsmiðla í meira mæli en kollegar þeirra á hinum Norðurlöndunum til að meta umsækjendur, samkvæmt nýútkominni skýrslu um stöðu og þróun mannauðsstjórnunar á Íslandi.

Arney Einarsdóttir forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í mannauðsstjórnun við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og einn höfunda skýrslunnar segir niðurstöðurnar benda til þess að fyrirtæki hér á landi noti jafnvel slíka miðla í stað persónuleikaprófa. Hún segir að hætta sé á að dregnar séu rangar ályktanir af upplýsingum á samfélagsmiðlum og að slíkar upplýsingar verði of ráðandi í ákvörðunartöku í ráðningum. Lítið virðist enn vitað um forspárgildi slíks persónuleikamats út frá upplýsingum á samfélagsmiðlum.

Rannsóknarmiðstöð í mannauðsstjórnun við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík gefur út skýrsluna sem ber heitið „Staða og þróun mannauðsstjórnunar á Íslandi“. Skýrslan er afrakstur viðamikillar könnunar sem fór fram í vor og er hluti alþjóðlega CRANET rannsóknarverkefnisins. Skýrslan var kynnt á vel sóttum fundi í Háskólanum í Reykjavík á föstudaginn.

Höfundar hennar eru Arney Einarsdóttir, lektor við viðskiptadeild HR, Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptadeild HR og Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Capacent og stundakennari við viðskiptadeild HR. Verkefnið er styrkt af fjármálaráðuneytinu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.

Breytileg laun minna notuð hér á landi

Fram kemur í skýrslunni að Íslendingar nota sjaldan breytileg laun til að umbuna og hvetja starfsfólk, miðað við hin Norðurlöndin. „Hvatagreiðslur hafa fengið á sig neikvæðan stimpil enda voru þær notaðar á rangan hátt í aðdraganda hrunsins. Slíkar greiðslur geta verið mjög jákvæðar, en þær þurfa að ná til breiðs hóps og byggja á formlegu og kerfisbundnu frammistöðumati en ekki geðþóttaákvörðunum. Þær mega heldur ekki vera of stór hluti af heildarlaunum hjá hverjum einstökum starfsmanni eða stjórnanda. Breytileg umbun getur líkz verið í formi frís eða annarra fríðinda sem nýjar kynslóðir á vinnumarkaði virðast meta meira en þær eldri,“ er haft eftir Arneyju í tilkynningu.

Samráðsnefndir gætu aukið framleiðni

Arney leggur einnig til að íslensk fyrirtæki skoði möguleikann á skipan samráðsnefnda innan fyrirtækja. „Það hefur komið í ljós að slíkar nefndir geta haft jákvæð áhrif á framleiðni, enda ákveðin leið til að virkja almennt starfsfólk í ákvörðunartöku. Það væri vert að skoða af hverju við lendum sí og æ í árekstrum á vinnumarkaði og ef til vill væri hægt að nýta samráðsnefndir í meiri mæli til að styrkja samstarf og samtal milli stjórnenda og starfsmanna.“

Hún segir að nýleg þýsk rannsókn sýni að þar sem samráðsnefndir séu starfræktar sé framleiðnin 18% meiri en í fyrirtækjum þar sem slíkar nefndir séu ekki til staðar.

Þetta er í fjórða skiptið sem CRANET-könnunin er gerð. Niðurstöðurnar nýtast meðal annar mannauðsstjórum og öðrum sem stjórna starfsfólki í starfi. Gögnin úr könnuninni, ásamt gögnum sem aflað er meðal starfsfólks, verða nýtt áfram á næstu misserum við viðskiptadeild HR til að svara ýmsum rannsóknarspurningum. Auk þess mynda þau verðmætan grunn sem nýtist í margvíslegu alþjóðlegu og innlendu rannsóknarsamstarfi.

Arney Einarsdóttir við kynningu á skýrslunni.
Arney Einarsdóttir við kynningu á skýrslunni. Mynd/Háskólinn í Reykjavík
Skýrslan var kynnt á vel sóttum fundi í Háskólanum í …
Skýrslan var kynnt á vel sóttum fundi í Háskólanum í Reykjavík á föstudaginn. Mynd/Háskólinn í Reykjavík
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK