„Tækifæri til aðskilnaðar er núna“

Rætt var um aðskilnað banka í hádeginu í dag.
Rætt var um aðskilnað banka í hádeginu í dag. mbl.is

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, segir algjöran aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabanka vera illmögulegan og vera umræðu gærdagsins. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir Íslendinga hafa einstakt tækifæri til þess að gera þetta núna.

Hugmyndir um aðskilnað bankastarfsemi voru ræddar á hádegisfundi Félags viðskipta- og hagfræðinga á Foss Hótel í dag. Í september sl. lögðu átta þingmenn úr röðum stjórnarandstöðunnar fram tillögu til þingsályktunar um aðskilnað fjárfestingabanka- og viðskiptabankastarfsemi. 

Ásgeir sagði rétt að setja tengslum viðskipta- og fjárfestingabanka einhverjar skorður en sagði hugmyndir um aðskilnað vera séríslenskt fyrirbæri þar sem fyrirkomulagið sé ekki einu sinni í umræðunni annars staðar. Steingrímur J. Sigfússon gerði á fundinum athugasemd við ummæli um að þetta væri umræða gærdagsins, og sagði menn virðast nokkuð snögga að standa upp eftir hrunið og dusta rykið af sér.

Alhliðabankar tryggðu innistæður

Ásgeir fór yfir rök með og á móti aðskilnaði á fundinum og benti á að fjárfestingarbankastarfsemi skipti hagkerfið miklu máli. „Fjárfestingabanki er samsett lífvera. Það eru mörg svið sem koma saman og Kínamúrar þurfa að vera á milli þeirra öfugt við í viðskiptabönkum,“ sagði hann og bætti við að margt mælti með alhliðabönkum.

Hann nefndi þar t.d. áhættudreifingu, fjölbreyttari tekjustofna, fjölbreyttari þjónustu og öruggari innlánatryggingu. Þar vísaði hann til þess að fjármögnun íslensku bankanna með heildsölulánum hefði tryggt endurheimtur innlána við fall þeirra árið 2008.

Ásgeir tíundaði einnig nokkra kosti við aðskilnað og benti t.d. á „of-stór-til-að-falla“ vandamálið og áhættu því fylgjandi. Auðveldara væri að fylgjast með smærri einingum auk þess sem ríkistryggð innlán yrðu ekki nýtt í fjárfestingabankastarfsemi. „Við losnum þannig við freistnivanda,“ sagði Ásgeir.

Meira svigrúm og aðkoma lífeyrissjóða?

Hann sagði viðskiptabankastarfsemina hins vegar vera langt frá því að vera örugga og benti á að bólan á árunum 2004 til 008 hefði verið viðskiptabankabóla knúin áfram af óvarlegum útlánum og húsnæðislánum. 

Þó sagði hann að mögulegur ábati aðskilnaðar gæti verið rýmra svigrúm fjárfestingabanka til athafna og benti á að þeir þyrftu þá mögulega á stuðningi lífeyrissjóða að halda.

Tækifærið er núna

Frosti Sigurjónsson sagði góðan hljómgrunn vera fyrir aðskilnaði um þessar og bætti við að almenn samstaða virtist vera um málið í stjórnarandstöðuflokkum. Hann vísaði þar að auki til ályktunar frá síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem fram kemur að landsfundur leggi „áherslu á að starfsemi fjárfestingabanka og viðskiptabanka verði að fullu aðskilin“. 

„Ef við tölum um jarðveg fyrir því að gera þessa hluti, að þá er það núna,“ sagði hann og bætti við að nauðsynlegt væri að skoða málið af ákveðni. 

„Það getur verið betri möguleiki á að gera svona hluti í litlum lýðræðislegum ríkjum en öðrum sem eru undir sterkum áhrifum fjármálakerfisins,“ sagði hann og bætti við að Íslendingar gætu verið frumkvöðlar í þessum efnum. „Ég skil ókostina sem fylgja aðskilnaði. Það mun leiða til meiri kostnaðar með tvöfaldri yfirbyggingu. Allt þetta þarf að vega á móti ríkisábyrgðinni og því að leyfa áhættusæknum fjármálastofnunum að fjármagna sig með ríkistryggðum innlánum.“

Burt með „fjárfestingabankaviðhorf“

Tryggvi Pálsson, stjórnarformaður Landsbankans, benti á að bankastjórnendur fyrir hrun hefðu verið með „fjárfestingabankaviðhorf“ og þar af leiðandi miklu áhættusæknari. Hann sagði að gæta þyrfti að hugarfari, viðskiptasiðferði og hvatakerfum til þess að viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi gæti farið saman. 

Hann benti á að þingsályktunartillaga sem þessi hefði níu sinnum áður verið lögð fram og vísaði til þess að þegar tillagan var síðast slegin út af borðinu hefði verið ákveðið að fylgjast með þróuninni á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu. Evrópusambandið er í dag einungis að huga að aðskilnaði gagnvart þeim bönkum sem kallaðir eru „Global Systemically Important Institutions“, sem eru þrjátíu bankar af átta þúsund. 

„Það er búið að gera mjög margt til þess að tryggja kerfið hér á landi,“ sagði hann. „Eftirlit Seðlabankans er mun skilvirkara en áður var. Það er búið að ganga öðruvísi frá regluverki og síðan eru að bætast við þjóðhagsvarúðartæki,“ sagði hann og vísaði m.a. til mögulegra takmarkana á vaxtamunaviðskiptum og hámörkun á veðsetningarhlutföllum. 

„Þetta hefur  gert það að verkum að það er minni ástæða en var fyrir þremur árum til að fara í aðskilnað. Og var þó ekki ástæða til á þeim tíma.“ 

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar. mbl.is/Styrmir Kári
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar
Tryggvi Pálsson, stjórnarformaður Landsbankans.
Tryggvi Pálsson, stjórnarformaður Landsbankans. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK