Engin skattkort og álagningu flýtt

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Fjármálaráðherra ætlar á næstu dögum að leggja fram frumvarp sem felur í sér ýmsar breytingar á skattalögum. Meðal annars verður útgáfu skattkorta hætt og verða þau alfarið gerð rafræn. Þá stendur til að flýta álagningu á einstaklinga um einn mánuð. Henni yrði því lokið 1. júlí og bætur og aðrar eftirstöðvar greiddar út á þeim tíma.

Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld var samþykkt á ríkisstjórnarfundi á föstudag og lagt fyrir þingflokka í dag. Til stendur að leggja það fyrir Alþingi sem fyrst.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu eru átján lagabreytingar fólgnar í frumvarpinu. Þær fela þó ekki í sér skattabreytingar að því leyti að verið sé að leggja á nýja skatta eða afnema þá, heldur er verið að reyna samræma og einfalda skattframkvæmdina, auk þess að auka réttaröryggi.

Hagræði fyrir skattgreiðendur

Líkt og áður segir verða skattkort í núverandi mynd úr sögunni ef breytingarnar ganga eftir. Gildistaka þessa veltur á því hvenær og hvort lögin verða samþykkt en miðað er við 1. janúar. Með þessu yrði til rafræn heimild um persónuafslátt sem vinnuveitendur gætu nálgast í gagnagrunni.

Afslátturinn ætti því aldrei að vera vanýttur auk þess sem töluvert hagræði skapast af því að þurfa ekki að skila inn skattkortum til vinnuveitenda. Þá ætti þetta einnig að gera samnýtingu hjóna eða sambúðarfólks einfaldari. 

Önnur breyting felst í því að flýta álagningardegi einstaklinga um einn mánuð en þetta er hægt vegna hagræðis sem skapast af rafrænum skilum. Þetta á þó ekki að breyta neinum kærufrestum. Samhliða þessu stendur til að rýmka heimildir ríkisskattstjóra til þess að krefjast rafrænna skila. 

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu verða væntanlega einhver bráðabirgðaákvæði um gildistöku þessa þar sem máli skiptir hvort breytingarnar teljist ívilnandi eða íþyngjandi og tímafresturinn fer eftir því.

Enginn erfðafjárskattur af gjöfum til góðgerðarmála

Í frumvarpinu er félagasamtökum og sjálfseignasamtökum sem starfa að almannaheill einnig gert auðveldara að afla sér fjármuna þar sem einstaklingar munu ekki þurfa að greiða erfðafjárskatt af slíkum gjöfum og heimildir fyrirtækja til frádráttar verða rýmkaðar.

Þar að auki er að finna breytingar er snúa að ferðakostnaði tónlistarmanna þar sem sama skattalega meðferð á að vera á ferða- og dvalarkostnaði. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur gert athugasemdir við núverandi framkvæmd þar sem t.d. flugmiði fyrir tónlistarmenn hefur verið frádráttarbær í öðrum löndum en ekki hér á landi. 

Fjármálaráðherra ætlar á næstu dögum að leggja fram frumvarp sem …
Fjármálaráðherra ætlar á næstu dögum að leggja fram frumvarp sem felur í sér ýmsar breytingar á skattalögum Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Fjármálaráðherra hyggst leggja frumvarpið bráðlega fyrir Alþingi.
Fjármálaráðherra hyggst leggja frumvarpið bráðlega fyrir Alþingi. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK