„Spennandi línudans“

Berþóra Guðnadóttir, hönnuður Farmers Market fékk Indriðaverðlaunin frá Fatahönnunarfélagi Íslands …
Berþóra Guðnadóttir, hönnuður Farmers Market fékk Indriðaverðlaunin frá Fatahönnunarfélagi Íslands síðustu helgi. Mbl.is/ Árni Sæberg

Fatahönnunarfélag Íslands veitti Indriðaverðlaunin i þriðja sinn á Uppskeruhátíð félagsins á laugardag en í ár var það einróma niðurstaða dómnefndar að Bergþóra Guðnadóttir skyldi hljóta verðlaunin fyrir hönnun sína á fatamerkinu Farmers Market. Verðlaunin eru kennd við klæðskerann Indriða Guðmundsson heitinn, sem þekktur var fyrst og fremst fyrir gæði og fagmennsku og eru veitt annað hvert ár. 

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að við valið sé litið til gæða hönnunarinnar allt frá hugmyndafræði til frágangs og að jafnvægi þurfi að ríkja milli sköpunargleðinnar og hins verklega til að skapa vel heppnaða heildarmynd. 

Góð tilfinning að fá klapp á bakið

„Satt að segja kom það mér mjög þægilega á óvart að fá þessa viðurkenningu,“segir Bergþóra Guðnadóttir. „Mér þótti mjög vænt um það og þann heiður sérstaklega að fá slíkt frá kollegum mínum og fólki úr bransanum.  Ég hef starfað í fullu starfi sem hönnuður í rúm 15 ár og það er góð tilfinning að fá núna klapp á bakið.“

Bergþóra stofnaði vörumerkið og hönnunarfyrirtækið Farmers Market árið 2005 ásamt manni sínum Jóel Pálssyni tónlistarmanni. „Leiðarstefið okkar er sjálfbærni sem gengur meðal annars út á það að hanna og framleiða vörulínu af fatnaði og fylgihlutum fyrir karla, konur og börn þar sem við leggjum áherslu á náttúruleg, endurnýjanleg og eða endurunnin hráefni eins og ull, hör, silki og bómull. “

Bergþóra segir fyrirtækið hafa ákveðna siðferðisstefnu og að þau vilji vera eins sjálfbær og mögulegt er og vinna í sem mestri sátt við bæði umhverfi og fólk. „Þannig hafa okkar aðalverkefni fyrir utan hönnunina verið að finna góða samstarfsaðila, til dæmis í framleiðslu á hráefnum og fatnaði og að vera jafnframt fjárhagslega sjálfbær og ekki háð til dæmis styrkjum eða annarra manna fé.  Nú er sem betur fer mikil vitundarvakning í heiminum á sjálfbærni og því gott að vera kominn vel af stað með okkar fyriræki og hafa  unnið mikla grunnvinnu á undanförnum árum.“

Við staðsetjum okkur á ímynduðum skurðpunkti þar sem sveitin mætist …
Við staðsetjum okkur á ímynduðum skurðpunkti þar sem sveitin mætist borginni, fortíðin nútíðinni og hið þjóðlega hinu alþjóðlega, segir Bergþóra Guðnadóttir hönnuður Farmers Market. Ljósmynd/ Ari Magg

Sveitin í rómantísku nostalgíuljósi

Farmers Market er þekkt fyrir fágaðar, klassískar flíkur sem blanda saman þjóðlegum norrænum áhrifum og nútímalegum straumum. „Hönnunarlega séð settum við okkur nokkurskonar ramma þar sem við sækjum innblástur í okkar norrænu hnattrænu stöðu og rætur," útskýrir Bergþóra. „Við staðsetjum okkur á ímynduðum skurðpunkti þar sem sveitin mætist borginni, fortíðin nútíðinni og hið þjóðlega hinu alþjóðlega.  Þetta þykir okkur spennandi línudans og í raun endurspeglun á okkar þjóð þar sem stór hluti fólks hefur aðlagað sig á skömmum tíma  að nútímalegu borgarlífi á undanförnum áratugum.  Flest okkar eru því enn með einhver tengsl við sveitina og sjá hana stundum í rómantísku nostalgíuljósi.  Við reynum að endurspegla þetta í hönnun og markaðsefni okkar.“ 

Höfuðsstöðvar Farmers Market eru úti á Granda en þar er flaggskip verslunarinnar staðsett sem kallast „Farmers & Friends“ og vöruhús fyrirtækisins. Um 50 sölustaðir selja vörur Farmers Market á Íslandi og erlendis og dreifast þeir allt frá Skandinavíu til Japan. 

Spurð hvort að fatahönnun sé ekki erfiður bransi hér á Íslandi svarar Bergþóra að þetta sé auðvitað ekki auðveldur bransi. „Hvorki á Íslandi né annars staðar.  En eftir að hafa starfað hér í 15 ár sé ég hvað málin hafa í raun þróast ótrúlega mikið og á jákvæðan hátt. Ég man vel eftir því þegar ég var í skólanum hér rétt fyrir aldamót að þá voru starfandi fatahönnuðir sennilega teljandi á fingrum annarrar handar.  Það voru aðallega grafískir hönnuðir og arkitektar sem gátu haft lífsviðurværi sitt af hönnun.“

Hönnunarmars gæti þróast í líkingu við Airwaves

Farmers Market hafa alltaf tekið þátt í HönnunarMars með einhverjum hætti, annað hvort með þátttöku á Reykjavik Fashion Festival eða verið með eigin viðburði. „Það er mjög gott fyrir fyritæki eins og okkar að halda svokallaðar „catwalk” sýningar því þær setja línuna í samhengi og skerpa fókusinn.  Við erum samt alveg raunsæ hvað það varðar að það er ansi langt í að erlendir innkaupaaðilar fari að flykkjast til Íslands í stórum stíl og þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að sýna á tískuvikum erlendis.  Hinsvegar finnst mér Hönnunarmars skemmtilegt fyrirbæri sem gæti þróast eitthvað í líkingu við Iceland Airwaves og vakið athygli á hönnunarsenunni á Íslandi svona almennt.“  

Vetrarlína Farmers Market í ár inniheldur allt frá hlýjum ullarnærfötum og undirkjólum upp í yfirhafnir og allt þar á milli. „Þú átt að geta klætt þig í Farmers Market flíkur yst sem innst. Við höldum áfram að láta sömu strauma og praktík blása okkur í brjóst þó að við tökum örugglega nýja og kannski óvænta vinkla þegar líða fer á næsta ár. “

Grandinn er þar sem allt er að gerast

Þar sem jólin nálgast óðfluga segir Bergþóra að um þessar mundir sé verið að gera búðina á Hólmaslóð ævintýralega fyrir hátíðarnar. „Við erum hér á Grandanum í hringiðu þar sem allt virðist vera að gerast um þessar mundir, hér spretta upp veitingastaðir, sælkerabúðir og ýmsar spennandi verslanir og fyrirtæki. “

En hvernig sér hún framtíðina hjá sér sem fatahönnuður að tíu árum liðnum?„Þá vona ég að ég brenni ennþá jafnheitt fyrir því sem ég er að gera og hlakka mikið til að fylgjast með þróun á náttúrlegum- og umhverfisvænum textíl í heiminum.  Það er mikið talað og skrifað um þessi mál en ennþá þarf að taka nokkur aukaskref ef maður vill fara þá leið. “

Herferðir Farmers Market endurspegla sveitina í rómantísku nostalgíuljósi. Hér má …
Herferðir Farmers Market endurspegla sveitina í rómantísku nostalgíuljósi. Hér má sjá flíkur úr vetrarlínu merkisins. Ljósmynd/ Ari Magg



mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK