Villta vestrið í fjármögnun

Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga.
Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga. mbl.is/Golli

Meniga er eitt farsælasta sprotafyrirtæki landsins og hefur vaxið hratt á alþjóðamörkuðum. Georg Lúðvíksson, forstjóri og stofnandi fyrirtækisins, hefur hlúð að starfseminni frá fyrsta degi og er með góðar ábendingar fyrir aðra í nýsköpunarhugleiðingum.

Georg var með erindi á SME Week 2015; ráðstefnu um frumkvöðla og fjármagn í morgun en hann hefur gengið í gegnum þrjár fjármögnunarlotur með Meniga.  Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Íslandsstofa, Rannís, Samtök iðnaðarins og Nýsköpunarsjóður standa að SME Week.

Hann benti á að lítill hluti sprotafyrirtækja ættu jafnan kost á áhættufjármögnun þar sem erfitt getur verið að mæta kröfum fjárfesta um hraðan vöxt. „Að taka þetta skref og fá áhættufjármagn er stórt skref og því fylgja miklar kvaðir. Þegar það er tekið er manni hent fram af bjargbrún og annað hvort flýgurðu eða hrapar,“ sagði Georg. „Þetta getur verið mjög sárt fyrir frumkvöðla sem hafa byggt upp verðmæt fyrirtæki.“

Kanna landslagið snemma

Georg sagði gott að reyna að komast sem lengst án fjármögnunar þar sem tekjur séu besta fjármagnið. Í tækniheiminum sé orðið ódýrt að þróa hugbúnað og því sé hægt að komast ansi langt án þess.

Hins vegar geti einnig verið gott að ná samvinnu við reynda fjárfesta með tilheyrandi reynslu, tengslaneti og þekkingu. 

Georg segir mikilvægt að vera á tánum og kanna landslagið snemma. „Við hjá Meniga kynntum okkur snemma fyrir fjárfestum. Þá var ennþá eitt ár í það sem við ætluðum að gera og samtalið varð auðveldara síðar. Við erum alltaf að hugsa eitt til tvö skref fram í tímann,“ sagði hann. „Fjármögnun tekur lengri tíma og er erfiðari en maður heldur,“ sagði Georg. „Staðreyndin er sú að miklu meira framboð er af fyrirtækjum en fjármagni.“

Auk þessa sé mikilvægt að passa upp á að fjárfestar og frumkvöðlar séu á sömu blaðsíðu varðandi aðkomu að rekstri og hversu lengi eigi að reyna. „Þessi umræði þarf að eiga sér stað snemma. Maður hefur séð fyrirtæki sem festast of lengi í einhverju miðjumoði.“

Hann áréttaði einnig að frumkvöðlar ættu að vinna alla heimavinnu vel áður en gengið sé á fund fjárfesta. „Ef þú færð að koma á æfingu hjá Manchester United ferðu ekki og dettur í það deginum áður,“ segir Georg og benti t.d. á að fjárfestar væru oftast að vinna með ákveðna hámarks- eða lágmarksupphæð og að nauðsynlegt væri að kanna það.

Ekki útvista fjármögnun

„Þú þarft að skilja hvernig fjármagn virkar í heiminum,“ sagði hann og bætti við að fjárfestar gætu bæði verið góðir og slæmir. 

„Þetta er eins og villta vestrið og það eru til sögur um frumkvöðla sem hafa brennt sig á fjárfestum og öfugt,“ sagði hann og vísaði til dæmis til útgönguákvæða í samningum þar sem sumir fjárfestar reyna að blóðmjólka sprotafyrirtæki með því að bæta inn ákvæði um þrefalda ávöxtun auk vaxta. „Þú lítur ekki vel út ef þú er að berjast á móti einhverju sem telst algengt í viðskiptum en hins vegar eykt virðingin ef þú kemur auga á eitthvað sem telst það ekki.“

Georg sagði jafnframt mikilvægt að standa fastur á tímaáætlunum og eyða ekki of miklum tíma í að afla fjármagns. „Maður þarf líka að einbeita sér að rekstrinum,“ sagði hann.

Að lokum mælti hann gegn því að ráða ráðgjafa til þess að sækja fjármagn. „Það er skynsamlegra fyrir frumkvöðla að vera sjálfir í þessu og fara og hitta fjárfesta. Þetta er eitt af því sem ætti ekki að útvista. 

Frá fundi um frumkvöðla og fjármögnun í morgun.
Frá fundi um frumkvöðla og fjármögnun í morgun. mbl.is/Golli
Meniga hefur vaxið hratt á liðnum árum og nota fjármálastofnanir …
Meniga hefur vaxið hratt á liðnum árum og nota fjármálastofnanir víða um heim þjónustuna. Mynd/Meniga
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK