Lag til þess að bjóða lægra eldsneytisverð

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB. SteinarH

Það er gott fyrir neytendur að fá fleiri valkosti við eldsneytiskaup, eins og stöðvar Orkunnar X, að mati Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra FÍB. Hann sagði að afsláttarsamningar giltu væntanlega áfram á hinum Orkustöðvunum þrátt fyrir afsláttarleysið hjá Orkunni X. Olíufélögin veita mörgum afslátt af eldsneytisverði t.d. út á aðild að tilteknum félögum. Þannig hefur FÍB samið um sérstakan afslátt fyrir sína félagsmenn hjá Atlantsolíu.

Runólfur taldi að valkostur á borð við Orkuna X nýttist mörgum vel, þar á meðal ferðamönnum. Hann kvaðst telja að Orkan X væri mögulega mótleikur við innkomu Costco og fleiri á eldsneytismarkaðinn. Greint hefur verið frá áformum Costco um að selja eldsneyti við verslun sem fyrirtækið hyggst opna hér. Eins hefur Krónan skoðað það að hefja sölu á eldsneyti. Runólfur sagði sala á eldsneyti á lágu verði við stórmarkaði hefði byrjað í Bandaríkjunum og breiðst þaðan til fleiri landa.

„Eina samkeppnin hér í eldsneytissölu hefur verið um einhverja afslætti og afsláttardaga,“ sagði Runólfur. „Óskastaðan er gegnsærra kerfi þar sem er eitt verð án afslátta.“ Hann sagði að miðað við verðmyndun á eldsneyti hér hefði honum ekki komið á óvart ef boðið hefði verið enn lægra eldsneytisverð en Orkan X gerir. En á hann von á verðstríði á eldsneytismarkaðnum?

„Ég á von á að þetta geti haft tímabundin áhrif á verðmyndun,“ sagði Runólfur. Hann sagði að lítill verðmunur á milli olíufélaganna sé vísbending um fákeppnina á eldsneytismarkaðnum. Eldsneytisverðið ráðist af innkaupsverði, sköttum, sem nú eru 55% af verði hvers bensínlítra, og álagningu söluaðila.

„Skattarnir hafa hækkað hlutfallslega því heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað. Álagningin er há sem fyrr. Við vitum að olíufélögin gera samninga eins við íslenska ríkið samkvæmt útboði. Þar eru miklu meiri afslættir af eldsneytisverði en hjá Orkunni X. Það er lag til þess að bjóða neytendum lægra eldsneytisverð.“

Allir borga sama verð

Orkan X seldi bensínlítrann í gær á 191,10 kr. en á hefðbundnum bensínstöðvum Orkunnar kostaði hann 198,10. Dísillítrinn var líka sjö krónum ódýrari hjá Orkunni X.

Orkan X er einfaldar bensínstöðvar. Á þeim er fast verð á eldsneyti og segir á heimasíðu fyrirtækisins að það verði það lægsta sem verður í boði hverju sinni. Það sem skilur X-merktu bensínstöðvarnar frá öðrum Orkustöðvum er að engir afslættir eru veittir frá auglýstu eldsneytisverði. Nýju Orkan X-stöðvarnar eru á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og einnig á Akranesi, Akureyri, Egilsstöðum og í Hveragerði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK