Borgin fer 8,7 milljarða umfram áætlun

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri

Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar á fyrstu níu mánuðum ársins var um 8,7 milljörðum króna lakari en gert var ráð fyrir. Árshlutareikningur borgarinnar var afgreiddur í borgarráði í dag.

Reksturinn var neikvæður um 2,4 milljarða króna en gert var ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um tæplega 6,3 milljarða króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að helstu ástæður megi rekja annars vegar til minni hagnaðar Orkuveitu Reykjavíkur vegna lækkandi álverðs og lakari afkomu A-hluta en áætlun gerði ráð fyrir.

Lífeyrisskuldbindingar umfram áætlun

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 8,5 milljarða króna en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 287 milljónir á tímabilinu. Lakari afkoma skýrist að langstærstum hluta af gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga að fjárhæð tíu milljarða króna, eða um 8,3 milljörðum króna umfram áætlum.

Rekstrarniðurstaða án gjaldfærslu lífeyrisskuldbindingar var jákvæð um 1,5 milljarða, sem er 503 milljónum króna lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar byggist á uppfærðu mati á gjaldfærslu fyrir árið 2015. Þar er lagt mat á áhrif launa-, verðlags- og vaxtaþátta og að auki er gert ráð fyrir að við uppgjör lífeyrissjóða fyrir árið 2015 verði notaðar breyttar forsendur um lífslíkur sem leiða til hækkunar gjaldfærslu.

Heildareignir Reykjavíkurborgar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok tímabilsins samtals 515 milljörðum króna, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 299 milljarðar króna og eigið fé nam 216 milljörðum en þar af nam hlutdeild meðeigenda 12 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 42 prósent en var 43,1 prósent um síðustu áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK