Fyrirburi færði þau til Íslands

Bjarney Sonja Breidert.
Bjarney Sonja Breidert.

„Við ákváðum að færa okkur hinum megin við borðið,“ segir Bjarney Sonja Breidert, jafnan kölluð Baddý, sem stofnaði veffyrirtæki í Frankfurt ásamt eiginmanni sínum Christoph Breidert árið 2011, en áður höfðu þau bæði starfað hjá fjárfestingarsjóðum.

Það var stórt skref að yfirgefa öruggt starf og koma sér fyrir á heimaskrifstofu og Baddý segist hafa verið farin að renna hýru auga til gamla umhverfisins eftir brösuga byrjun á fyrstu mánuðum. Boltinn byrjaði hins vegar að rúlla þegar fyrsta verkefnið datt inn á borð og árið 2013 bættist þriðji starfsmaðurinn í hópinn.

Aldrei tekið lán

Síðan hefur vöxturinn verið hraður og eru starfsmenn fyrirtækisins, sem nefnist 1xINTERNET, átján talsins í dag. Þetta er svokallað Drupal-veffyrirtæki sem dregur nafn sitt af hugbúnaðinum sem notaður er til þess að hanna heimasíður, vefverslanir og aðrar netlausnir fyrir viðskiptavini. Þetta er eitt algengasta vefumsjónarkerfið í dag og er 1xINTERNET eitt stærsta fyrirtæki þessar tegundar í Þýskalandi. Kúnnarnir eru í dag um 150 talsins; stærsti hluti þeirra á meginlandi Evrópu og nokkrir á Íslandi.

„Þetta hefur verið skemmtilegt frá fyrsta degi og algjör rússíbani,“ segir Baddý og bætir við að fyrirtækið hafi alltaf verið rekið á eigin fjármagni. „Við höfum verið að fjármagna þetta á verkefnum og það hefur verið erfitt. Eftir hvern einasta plús í bókhaldinu er nýjum starfsmanni bætt við eða vöxturinn byggður upp. Við höfum alltaf viljað gera þetta á heilbrigðan hátt og höfum aldrei tekið lán, heldur verið dugleg að vinna og skipulagt okkur vel.“

Kemur á tveggja mánaða fresti

Þrátt fyrir að vera með skrifstofu í Frankfurt er fyrirtækið með nokkuð marga íslenska kúnna en meðal verkefna var aðstoð við gerð nýrrar vefsíðu Ríkisútvarpsins, innra net Reykjavíkurborgar og nýr vefur stórfyrirtækis í Reykjavík sem fer í loftið í lok nóvember. Baddý segir hlutdeild þeirra á íslenska markaðnum hafa komið til fyrir tilviljun þar sem hjónin voru stödd hér á landi árið 2012 þegar yngra barn þeirra kom öllum að óvörum í heiminn þremur mánuðum fyrir tímann.

Ekki var hægt að ferðast aftur til Þýskalands með kornabarnið fyrr en sex mánuðum síðar og var því farið að leita verkefna hér á landi. Í dag kemur Baddý á um tveggja mánaða fresti til landsins að vinna og segir fyrirkomulagið vera frábært þar sem börnin þeirra geta heimsótt ættingja á Íslandi í leiðinni.

Finna jafnvægið

Spurð um almennt ástand vefsíðna hjá íslenskum fyrirtækjum segir hún Íslendinga í góðum málum. „Það eru fáir með lélegar vefsíður og við sjáum að það er heilmikil samkeppni á íslenska markaðnum.“ Baddý segir markmiðið héðan í frá vera að finna jafnvægi milli þess að stækka og halda sömu gæðum.

„Við erum að sinna það miklu af verkefnum um þessar mundir að við gerum ráð fyrir að stækka svo lengi sem okkur líður vel með það,“ segir Baddý spurð um framtíðina. Hún bendir á að nokkur Drupal-veffyrirtæki séu með um 30 til 50 starfsmenn og segist vel geta hugsað sér að fara upp í þá stærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK