Neyslumynstrið að breytast

Neytendur eiga í auknum mæli viðskipti í gegnum símann sinn …
Neytendur eiga í auknum mæli viðskipti í gegnum símann sinn sem er tengdur allan sólarhringinn. Eggert Jóhannesson

„Samkeppnin á eftir að aukast á fjármálamarkaði því nú er mögulegt að vera í slíkum viðskiptum án þess að vera með mikið eigið fé eins og krafist er af bönkum og tryggingafélögum,“ segir Henrik Andersson, sérfræðingur hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey í Stokkhólmi, í samtali við ViðskiptaMoggann. Hann er meðal frummælenda á ráðstefnu Samtaka fjármálafyrirtækja, sem haldin var í dag í húsakynnum Arion banka, undir yfirskriftinni Stafræna byltingin, tækifæri og áskoranir á fjármálamarkaði.

Hann segir að fleiri og annars konar fyrirtæki eigi eftir að fara inn á hinn hefðbundna fjármálamarkað. „Þó að Ísland sé ekki stór markaður í alþjóðlegu samhengi gæti verið auðvelt fyrir erlend fyrirtæki að koma inn og taka hluta af kökunni.“

Óljósari skil milli atvinnugreina

Henrik segir þrjár meginástæður fyrir því að hefðbundin fjármálastarfsemi sé að breytast. „Í fyrsta lagi eru neytendur að breyta neyslumynstri sínu þegar þeir eiga í auknum mæli viðskipti í gegnum símann sinn sem er tengdur allan sólarhringinn. Þeir lifa orðið í stafrænum heimi og velta því fyrir sér af hverju þeir geta ekki opnað bankareikning eða sótt um lán í gegnum símann.

Í öðru lagi er fjöldi tækifæra til að veita fjármálaþjónustu án þess að vera með mikið eigið fé, sem áður var hindrun fyrir nýja aðila að komast inn á fjármálamarkað. Þetta á sérstaklega við í allri greiðslumiðlun, líkt og Paypal.

Í þriðja lagi eru að verða óljósari skil á milli atvinnugreina. Amazon og Alibaba í Kína eru að bjóða fjármálaþjónustu til að auðvelda neytendum kaup á vörum. Þessar síður eru að einhverju leyti að veita bankaþjónustu vegna þess að þau vilja selja meira af vörum. Þessar vefsíður vilja auðvelda kaupin, sem eykur síðan hagnað þeirra.“

Hann segir að fjármálafyrirtækin séu að átta sig á þessum miklu breytingum og sitji því ekki með hendur í skauti. „Mörg hver eru að vinna í því að auðvelda viðskiptavinum aðgengi á marga vegu í gegnum netið og símann. Sum þeirra vilja jafnvel fá inn óhefðbundna starfsmenn sem koma úr öðrum atvinnugreinum. Í stað starfsmanna í jakkafötum með bindi vilja þau fá starfsmenn úr tölvuleikjageiranum sem þekkja vel umhverfi tækninnar.“

Tíminn skiptir máli

Hann nefnir einnig að fjármálafyrirtækin séu að opna augun fyrir því að tíminn skipti miklu máli og að hraða þurfi afgreiðslu verkefna. „Lánaumsóknir sem áður gat tekið 2-3 vikur að afgreiða þarf jafnvel að stytta niður í hálftíma.“

Hann segir það jákvætt að aukin samkeppni leiði til betra umhverfis fyrir neytendur. „Hefðbundin fjármálafyrirtæki eru að átta sig á að þau þurfa að breyta starfsemi sinni og bjóða betri tengingar við neytendur til að auðvelda viðskipti. Auk þess verða þau að vera hraðvirkari og þægilegri í öllum samskiptum,“ segir Henrik að lokum.

Henrik Anderson
Henrik Anderson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK