Plastseðlar gætu orðið valkostur

Pappírsseðlar eru ekki til ama á Íslandi þar sem falsanir …
Pappírsseðlar eru ekki til ama á Íslandi þar sem falsanir eru sjaldgæfar og enginn raki í lofti. mbl.is/Golli

Sumar þjóðir hafa tekið upp plastseðla til þess að auka endingartíma þeirra og hefur til dæmis Englandsbanki ákveðið að setja fimm punda seðil úr plasti í umferð árið 2016. Hornin á íslenska tíu þúsund króna seðlinum eru úr plasti en að öðru leyti ætti almennt ekki að vera þörf á þessum seðlum hér á landi.

Áætlað hefur verið að meðallíftími allra seðla í heiminum í dag sé um tvö og hálft ár samkvæmt því sem fram kemur í nýju riti Fjármálainnviða. Plastseðlarnir eiga að endast lengur en eru aftur á móti dýrari. Kostnaðurinn við framleiðslu á hverjum plastseðli liggur ekki nákvæmlega fyrir en benda má á að það kostar 29 krónur að framleiða hvern tíu þúsund króna seðil.

Þrátt fyrir að endingartíminn sé meiri er því ekki sjálfgefið að hagstæðara sé að nota plastseðla í stað pappírseðla.

Seðlabanki Kanada setti plastseðla í umferð fyrir nokkrum árum og líkt og áður segir ætla Bretar að taka þetta upp á næstunni. Sumir telja eina ástæðuna fyrir því vera að sá sem stýrir Englandsbanka í dag, Mark Joseph Carney, er fyrrverandi seðlabankastjóri Kanada og hefur því ákveðin tengsl við landið.

Hafa skoðað kosti og galla

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands hefur bankinn ekki gert formlega greiningu á því hvort plastseðlar séu vænlegur kostur fyrir íslenska hagkerfið. Seðlabankinn þekki þó ágætlega kosti og galla plastseðla og hafi skoðað þá í langan tíma. Starfsmenn hafi til dæmis verið meðvitaðir um þá tegund þegar tíu þúsund kallinn var tekinn í notkun árið 2013 en ákveðið var að fara aðra leið. 

Nokkrar ástæður eru fyrir því að sumar þjóðir hafa ákveðið að setja plastseðla í umferð. Í fyrsta lagi á að vera erfiðara að falsa þá auk þess sem þeir eiga að endast lengur. Þá henta þeir vel í sumum löndum þar sem veðurfar og raki er þannig að pappírs- eða bómullarseðlar geta verið til vansa.

Seðlabankinn bendir á að falsanir séu almennt ekki vandamál á Íslandi og að íslenskt veðurfar fari ekki illa með pappírsseðla. Þá hafi öryggisþættir í pappírsseðlum einnig tekið miklum framförum á síðustu árum.

Gæti gengið ef verð lækkar

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum væri það í sjálfu sér lítið mál að skipta yfir í plastseðla. Íslendingar séu duglegir að greiða fyrir hluti með plastkortum og ættu alveg eins að geta notað plastseðla. Ef hins vegar plastseðlarnir eru helmingi dýrari og endast helmingi lengur myndi Seðlabanki Íslands ekki spara á þeim peninga.

Þegar framleiðslukostnaður seðlanna verður orðinn lægri og góðar tölur um lengri endingartíma liggja fyrir gæti þetta aftur á móti verið valkostur fyrir Ísland.

Fimm punda seðlar úr plasti verða teknir í notkun árið …
Fimm punda seðlar úr plasti verða teknir í notkun árið 2016. AFP
Seðlabankinn hefur skoðað kosti og galla plastseðla.
Seðlabankinn hefur skoðað kosti og galla plastseðla. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK