N1: „Engin samhæfð verðlagning“

N1 segir umfangsmiklar markaðsaðgerðir allra olíufélaganna allt árið um kring …
N1 segir umfangsmiklar markaðsaðgerðir allra olíufélaganna allt árið um kring vera órækan vitnisburð um heilbrigða samkeppni. AFP

N1 vísar því alfarið á bug að einhvers konar meðvituð eða ómeðvituð samhæfing verðlagningar á bifreiðaeldsneyti sé til staðar.  „Félagið og starfsmenn þess finna þvert á móti fyrir harðvítugri samkeppni á smásölumarkaði eldsneytis, þar sem félögin öll keppa í sífellu um viðskipti einstaklinga með margvíslegum hætti, svo sem afsláttartilboðum og aukinni þjónustu.“

Þetta segir í yfirlýsingu frá N1 í kjölfar nýútgefinnar markaðsrannsóknar Samkeppniseftirlitsins. Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að samkeppni sé verulega skert á mikilvægum hluta markaðarins og að þörf sé á aðgerðum til að bæta hag almennings. Talið er að neytendum hafi greitt 4 til 4,5 milljörðum króna of mikið fyrir bif­reiðaeldsneyti í smá­sölu árið 2014.

Frétt mbl.is: Fákeppni kostar neytendur milljarða

N1 segir umfangsmiklar markaðsaðgerðir allra olíufélaganna allt árið um kring vera órækan vitnisburð um heilbrigða samkeppni.

Í yfirlýsingu N1 segir félagið nauðsynlegt að koma nokkrum atriðum á framfæri. 

Í fyrsta lagi telur félagið að forsendur Samkeppniseftirlitsins varðandi útreikninga á álagningu á eldsneyti á Íslandi séu rangar. Bent er á að landfræðileg staða Íslands, smæð markaðarins, hár hlutfallslegur flutnings- og dreifingarkostnaður og hár fjármagnskostnaður hafi óhjákvæmilega í för með sér að verð á eldsneyti sé nokkuð hærra hér á landi en í flestum OECD löndum.

Tilbúin til viðræðna um Olíudreifingu

Í skýrslunni er bent á að íslensku olíufélögin starfi flest á öllum stigum markaðarins, s.s. innflutningi, birgðahaldi, dreifingu, heildsölu og smásölu, og teljast því lóðrétt samþætt, og er þetta talið hamla samkeppni. N1 tekur ekki undir þetta og segir fyrirkomulag birgðahalds og dreifingar hér á landi ekki hamla samkeppni, heldur frekar halda kostnaði í skefjum. 

Annað tveggja félaga sem annast birgðahald og dreifingu hér á landi er Olíudreifing, sem er og hefur verið lengi í sameiginlegri eigu N1 og Olís. Olíudreifing starfar á grundvelli ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá árinu 1995. 

N1 segist að sjálfsögðu vera til viðræðna ef Samkeppniseftirlitið telur forsendur fyrri ákvarðana hafa breyst og að ástæða sé til þess að breyta fyrirkomulaginu varðandi Olíudreifingu.

Fagna mögulegum endurbótum

Í skýrslunni kemur einnig fram kemur fram það mat Samkeppniseftirlitsins að margs konar regluverk og framkvæmd stjórnvalda, s.s. framkvæmd og umgjörð skipulagsmála, ásamt umgjörð og upplýsingamiðlun Flutningsjöfnunarsjóðs, sé ekki til þess fallið að auka samkeppni. 

N1 segist geta tekið undir þessi sjónarmið, a.m.k. að hluta til og fagna því ef endurbótum verður komið á hvað sum tilgreindra atriða varðar, t.a.m. varðandi umgjörð Flutningsjöfnunarsjóðs.

Hér má finna frummats­skýrslu Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins.

Hér má finna yfirlýsingu N1 í heild.

mbl.is/Þórður Arnar
Samkeppniseftirlitið hefur gefið út skýrslu um eldsneytismarkaðinn.
Samkeppniseftirlitið hefur gefið út skýrslu um eldsneytismarkaðinn. mbl.is/Heiðar
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK