Fyrsta skuldabréfaútgáfa Landsbankans í Skandinavíu

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, fagnar þeim mikla áhuga sem fjárfestar …
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, fagnar þeim mikla áhuga sem fjárfestar í Skandinavíu hafa sýnt. mbl.is/Kristinn

Landsbankinn hefur í dag lokið við sína fyrstu skuldabréfaútgáfu í Skandinavíu. Í kjölfar fjárfestafunda sem haldnir voru í nóvember ákvað Landsbankinn að mæta eftirspurn skandínavískra fjárfesta með útgáfu sem nemur 250 milljónum norskra króna og 250 milljónum sænskra króna.

Skuldabréfin sem gefin eru út undir EMTN-ramma Landsbankans eru til 3½ árs og bera 2,6% álag ofan á millibankavexti í norskum krónum annars vegar og 2,6% álag ofan á millibankavexti í sænskum krónum hins vegar, að því er fram kemur á vef Landsbankans. Þá segir að umframeftirspurn hafi verið eftir skuldabréfunum sem seld voru til 30 fjárfesta í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og á meginlandi Evrópu.

„Landsbankinn er ánægður með þann mikla áhuga sem fjárfestar í Skandinavíu sýna. Með þessari útgáfu í norskum og sænskum krónum er Landsbankinn að fylgja eftir vel heppnaðri útgáfu undir EMTN-rammanum frá því í október. Útgáfan nú er á hagstæðari kjörum en þá og styrkir enn frekar fjármögnun bankans í erlendum myntum, er haft eftir bankastjóranum Steinþóri Pálssyni.

Umsjón með útgáfunni hafði Pareto Securities AB í Stokkhólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK