Fá 100 þúsund króna inneign í IKEA

Börn og fullorðnir fá 100 þúsund króna inneign.
Börn og fullorðnir fá 100 þúsund króna inneign. mbl.is/Gísli Sigurðsson

„Við megum ekki gleyma því að þetta er bara venjulegt fólk eins og við og örugglega með sinn smekk,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. Verslunin ætlar að gefa hverjum og einum úr hópi 55 sýrlenskra flóttamanna sem eru á leið til landsins 100 þúsund króna inneign. Alls 5,5 milljónir króna.

„Þegar hlutnirnir fara að hægjast hjá þeim geta þau komið og valið eigin hluti í stað þess að þiggja einungis notuð húsgögn,“ segir Þórarinn.

Fréttablaðið greindi frá gjöf IKEA í morgun en líkt og fram kom í frétt mbl í gær er IKEA í Kanada einnig að aðstoða flóttafólk með inneign í versluninni. Þórarinn segist ekki vita til þess að fleiri IKEA verslanir séu að þessu en telur það ekki ólíklegt þar sem skrefið sé í samræmi við stefnu fyrirtækisins.

Rann blóðið til skyldunnar

Aðspurður hvort fleiri flóttamenn fái gjafir sem þessar segist Þórarinn ekki getað lofað neinu. „En reksturinn gengur vel og okkur rann blóðið til skyldunnar,“ segir hann. 

IKEA á Íslandi hefur lengi átt gott samstarf við Rauða krossinn en gjafirnar hafa þá verið með öðrum hætti og hefur frekar verið reddað tilteknum hlutum sem vantar.

Nú hefur töluvert þegar safnast fyrir fólkið sem er á leið til landsins og Þórarinn segir inneignina því vera heppilegri gjöf.

Líkt og áður segir fá allir 100 þúsund króna inneign. „Þörfin er alveg jafn mikil fyrir börn og fullorðna,“ segir Þórarinn. „Börnin þurfa rúm, skrifborð, leikföng, rúmföt og margt annað.“

„Að vel hugsuðu máli töldum við þörfina ekki minni hjá börnunum.“

Rauði krossinn mun fá gjafabréfin í janúar og afhenda flóttafólkinu. Inneignin er opin og eru engar kvaðir á því hvað megi kaupa.

Aðspurður segist Þórarinn ekki hafa heyrt um fleiri verslanir sem eru að aðstoða flóttafólkið með þessum hætti en tekur fram að gjafakort í matvöruverslanir og aðrar búðir myndu eflaust koma sér vel.

Í hópnum sem er á leið til landsins er 21 er fullorðinn og 34 börn yngri en sextán ára. Komu þeirra til landsins hefur seinkað og er nú gert ráð fyrir þeim seinni part janúarmánaðar.

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA.
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK