Vilja fækka ríkisstofnunum um 118

Íslendingar halda úti 188 ríkisstofnunum.
Íslendingar halda úti 188 ríkisstofnunum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ísland er örríki í alþjóðlegum samanburði. Þrátt fyrir það höldum við úti 188 ríkisstofnunum og nokkur hundruð rekstrareiningum til viðbótar á sveitastjórnarstiginu.

Viðskiptaráð hefur lagt fram 30 tillögur að fækkun ríkisstofnana með fjórum tegundum aðgerða: samrekstri, faglegum sameiningum, hreinum sameiningum og aflagningu starfsemi.

Gangi tillögurnar eftir, telur Viðskiptaráð að hægt væri að fækka ríkisstofnunum um 118, þ.e. úr 188 niður í 70. Þannig myndu umtalsverðir fjármunir sparast og þjónusta hins opinbera batna vegna faglegs ávinnings sameininga.

Öll söfn í eina stofnun

Tillögurnar skiptast í fjóra flokka; samrekstur, faglegar sameiningar, hreinar sameiningar og aflagningu.

Talið er að með því að auka samrekstur á sviði framhaldsskóla, safna, menningarstofnana, heilsugæsla, dómstóla, sýslumanna og lögreglu sé hægt að veita hærra hlutfalli fjármuna til kjarnastarfsemi.

T.d. er bent á að hægt væri að reka öll söfn á vegum hins opinbera undir einni stofnun, þ.e. safnastofnun.

Stofnun borgaralegra réttinda?

Hvað faglegar sameiningar varðar er talið að hægt sé að fækka örstofnunum sem starfa innan sama málaflokks. Er þá átt við sameiningar á sviðum borgaralegra réttinda, stuðningi við heyrna-, tal- og sjónskerta, tæknilegs eftirlits, umhverfis- og auðlindastjórnunar og atvinnuþróunarmála.

Bent er á að hægt væri að sameina Umboðsmann barna, Persónuvernd, Fjölmenningarsetur, Jafnréttisstofu og Barnaverndarstofu undir svokallaðri Stofnun borgaralegra réttina.

Háskólarannsóknir undir einn hatt

Í skoðun Viðskiptaráðs kemur einnig fram að umfangsmikil tækifæri séu til hreinnar sameiningar. Er þá átt við að sameina stofnanir sem sinna hlutverkum sem skarast í dag. Má þar nefna landgræðslu, fiskirannsóknir, háskólastarfsemi, markaðseftirlit, lögreglustarfsemi, fjármálastöðugleika, samgöngumál, landmælingar og saksóknir.

Dæmi um slíka sameiningu væri færsla allra háskólarannsókna og -kennslu hins opinbera undir Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Í dag er Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn rekin með tvo starfsmenn og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar með fimm starfsmenn. Þá eru 34 stöðugildi hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og 46 stöðugildi hjá Háskólanum á Hólum.

Eðlilegra er talið að sameina allar þessar stofnanir undir hatti tveggja stærstu háskólanna.

Þannig mætti fækka rekstrareiningum um sex án þess að draga þurfi úr þeirri kennslu og rannsóknum sem fara fram í dag. „Þvert á móti má vænta þess að kjarnastarfsemin eflist eftir því sem reksturinn verður hagkvæmari og faglegur ávinningur skapast fyrir það starfsfólk sem sinnir grunnhlutverkum þessara stofnana,“ segir Viðskiptaráð.

„Hættum óhagkvæmni“

Að lokum telur Viðskiptaráð að stefna ætti að niðurlagningu Umboðsmann skuldara, ÁTVR, Íbúðalánasjóðs, Þróunarsamvinnustofnun og Bankasýslu ríkisins og færa verkefni þeirra ýmist til annarra aðila eða leggja þau niður.

„Dæmi um óþarfa ríkisstofnun er Íbúðalánasjóður. Reynslan sýnir að hið opinbera á ekki að starfrækja útlánastarfsemi á fasteignamarkaði, en áætlað heildartap skattgreiðenda vegna útlána Íbúðalánasjóðs nemur hundruðum milljarða króna,“ segir Viðskiptaráð.

„Starfsemi sjóðsins fer fram í beinni samkeppni við aðra aðila sem eru virkir á íbúðalánamarkaði og fullnægja þörf einstaklinga eftir húsnæðislánum.“

Viðskiptaráð segir að nú verði ekki lengur við það búið að ríkið sé rekið með jafn óhagkvæmum hætti og við þekkjum í dag.

Með fækkun stofnana um yfir 118 væri hægt að draga úr kostnaði og bæta þjónustu hins opinbera samhliða. Hvort tveggja væri til þess fallið að einstaklingar fái meira fyrir þá fjármuni sem þeir leggja fram í formi skatta og opinberra gjalda.

Hér má lesa skoðun Viðskiptaráðs í heild.

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands.
Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Íbúðalánasjóður er óþarfa stofnun sem kostar skattgreiðendur mikið segir Viðskiptaráð.
Íbúðalánasjóður er óþarfa stofnun sem kostar skattgreiðendur mikið segir Viðskiptaráð. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK