Eiga ekki einir að bera hitann

SA segja að ætla megi að íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi …
SA segja að ætla megi að íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi og landbúnaði verði af um 15 milljarða króna tekjum á ári vegna stuðnings stjórnvalda við viðskiptabann á Rússland. Rax / Ragnar Axelsson

Þrátt fyrir að Íslandi beri að standa með bandalagsþjóðum sínum er ekki forsvaranlegt að gífurlegur kostnaður af viðskiptabanni á Rússland leggist nánast alfarið á eina atvinnugrein án þess að gripið sé til nokkurra mótvægisaðgerða til að lágmarka tjónið.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samtökum atvinnulífsins sem hvetja stjórnvöld til þess að endurskoða viðskiptabannið.

Þar segir að viðskiptabann ESB og Bandaríkjanna á Rússland hafi haft mjög neikvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf. Ætla megi að íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi og landbúnaði verði af um 15 milljarða króna tekjum á ári vegna stuðnings stjórnvalda.

Þá segir að áhrif á vöruútflutning þeirra þjóða sem styðja bannið hafi verið hlutfallslega mest á Íslandi.

ESB hefur nú framlengt bannið um sex mánuði en til stóð að það félli niður í lok janúar 2016.

„Atvinnulífið hefur skilning á alvarlegri stöðu mála í Úkraínu og að framferði Rússlands þar og á Krímskaga verði ekki látið óátalið. Ákvörðun Íslands um þátttöku í aðgerðunum er tekin í því ljósi,“ segir í yfirlýsingunni.

„Það veldur hins vegar miklum vonbrigðum að ESB hefur ekki ljáð máls á aðgerðum til að draga úr neikvæðum áhrifum stuðnings Íslands við viðskiptabannið, t.d. með auknum markaðsaðgangi fyrir íslenskar sjávarafurðir.“

Eiga að skilyrða stuðninginn

Viðskiptabanninu, sem snýr að banni á vopnaviðskiptum og fjármögnun fjármálastofnana í Rússlandi, hafa Rússar svarað með því að banna innflutning matvæla. Sala á íslenskum sjávarafurðum hefur farið vaxandi til Rússlands á undanförnum árum og skipt miklu fyrir þjóðarbúið.

„Þar sem Íslendingar leggja hvorki stund á vopnaviðskipti né fjármögnun rússneskra banka hefur viðskiptabann okkar á Rússland engin áhrif, en bann þeirra við innflutningi á matvælum mjög mikil áhrif á Ísland,“ segja Samtök atvinnulífsins.

Í yfirlýsingunni segir að það sé lágmarkskrafa að íslensk stjórnvöld skilyrði áframhaldandi stuðning við viðskiptabannið við það að á móti komi aukinn markaðsaðgangur að Evrópumarkaði fyrir sjávarafurðir.

„Það er ekki eðlilegt að sjávarútvegurinn beri hitann og þungann af utanríkisstefnu Íslands í þessu máli,“ segja Samtök atvinnulífsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK