Bieber veltir hundruðum milljóna

Justin Bieber malar gull á tónleikaferðalagi.
Justin Bieber malar gull á tónleikaferðalagi. AFP

Miðasölutekjur vegna Justin Bieber-tónleikanna tvennra gætu numið 630 milljónum króna að því gefnu að allir miðar verði seldir á uppsettu verði. Ísleifur Þórhallsson, tónleikahaldari hjá Senu, segir Bieber og hans batterí taka stóran hluta ágóðans.

Alls eru 38 þúsund miðar í boði á tónleikana. Í stæði eru 36 þúsund miðar í boði en hver þeirra kostar 15.990 krónur. Í stúku eru alls tvö þúsund miðar í boði. Um eitt þúsund miðar á hvort svæði fyrir sig. Annað svæðið kostar 24.990 og hitt 29.990. 

Upp úr öðru kvöldinu er því að hafa 315 milljónir króna og með aukatónleikunum nemur upphæðin um 630 milljónum króna.

Ísleifur bendir þó á að það sé í raun aldrei þannig að allir miðar séu seldir á fullu verði og má því setja töluverðan fyrirvara við útreikningana.

Hann segist bundinn trúnaði um kostnaðinn við að fá Bieber til landsins. Samkvæmt lauslegri könnun mbl virðist Bieber þó vera meðal dýrustu tónlistarmanna heims. Umboðsskrifstofan Degy Entertainment birti í fyrra lista yfir kostnaðinn við að fá fjölmarga listamenn á tónleika. Þar kemur fram að átta söngvarar, og þar á meðal Justin Bieber, rukki yfir eina milljón Bandaríkjadala. Á núverandi gengi jafngildir það um 130 milljónum íslenskra króna.

Tölurnar voru þó birtar áður en Bieber gaf út nýjustu plötuna sína og fyrir núverandi tónleikaferðalag. 

Súperstjarnan hefur samningakraftinn

Ísleifur segir stórstjörnur á borð við Bieber taka stóran hluta ágóðans án þess að þurfa að taka á sig áhættuna. Tónleikahaldari lætur af hendi himinháa tryggingu þegar listamaðurinn er bókaður og í upphafi er smíðuð áætlun þar sem tekið er til kostnaðar og tekna. Í lokin er hlutdeild hvors aðila ákvörðuð. „Það er aldrei þannig að við séum að taka áhættuna og fá ágóðann eftir því,“ segir hann. 

„Súperstjarna sem er vinsæl um allan heim hefur mikinn samningakraft og allir í kringum hann kunna á bransann. Litli gaurinn, tónleikahaldarinn í heimalandi sínu, fær aldrei neitt stórkostlegt,“ segir Ísleifur.

Aðspurður hvort ekki sé þá hægt að búast við því að verða ríkur af tónleikahaldi segir Ísleifur að leiðin sé að minnsta kosti ansi löng. „Maður þarf að byggja upp mikið traust til þess að fá að vera með stóra tónleika. Maður er núna búinn að vera að þessu í tuttugu ár,“ segir Ísleifur og bendir á þrenna stórtónleika á sínum ferli; Eagles 2011, Justin Timberlake 2014 og Justin Timberlake 2016. 

„Það eru nokkur ár á milli og þá eru þetta minni viðburðir og barningur,“ segir hann. „Þetta er sveiflukenndur og brokkgengur rekstur,“ segir Ísleifur.

Aðspurður hvort það sé þó ekki töluvert hagræði í því að koma inn tvennum stórtónleikum með sömu stórstjörnu segir Ísleifur það vissulega vera mjög gott fyrir alla en bróðurparturinn af ávinningnum fari eins og áður segir til erlendu aðilanna.

Ísleifur Þórhallsson, tónleikahaldari hjá Senu.
Ísleifur Þórhallsson, tónleikahaldari hjá Senu.
Tæplega 17.000 voru á tónleikum Justin Timberlake í Kórnum. Enn …
Tæplega 17.000 voru á tónleikum Justin Timberlake í Kórnum. Enn fleiri mæta á Bieber. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK