Viðskipti tengd klámi og veðmálum

Þjónustutekjur Borgunar hafa þrefaldast á fimm árum. Stærstur hluti þess …
Þjónustutekjur Borgunar hafa þrefaldast á fimm árum. Stærstur hluti þess er vegna erlendra viðskipta, en félagið hefur þjónustað áhættusöm viðskipti í auknum mæli. mbl.is/Júlíus

Stóraukin umsvif greiðslukortafyrirtækisins Borgunar á erlendum markaði undanfarin ár má fyrst og fremst rekja til vafasamra og áhættusamra viðskipta sem önnur kortafyrirtæki vilja ekki sinna. Forsvarsmenn fyrirtækisins kynntu áform um útrás á þennan markað fyrir eigendum sínum. Landsbankanum, sem var einn eiganda á þeim tíma, hugnaðist ekki þessi aukna áhætta og áherslubreyting. Meðal þess sem flokkast sem áhættumikil viðskipti fyrir kortafyrirtæki er færsluhirðing fyrir klámviðskipti og fjárhættuspil. Slík áhættusöm viðskipti hafa aukið veltu Borgunar mikið síðustu ár.

Vafasöm viðskipti aukist samhliða vexti viðskipta á netinu

Færsluhirðing á netinu hefur vaxið mikið undanfarin ár með fjölgun notenda á netinu og aukinni verslun í gegnum netið. Samhliða því hafa viðskipti sem flokkast sem áhættusöm einnig aukist mikið.

Fyrir færsluhirða eru viðskipti flokkuð í áhættusöm viðskipti og þau sem teljast nokkuð örugg. Meðal nokkuð öruggra viðskipta er hægt að nefna venjulegan verslunarrekstur. Áhættusömu viðskiptin flokkast svo upp í nokkuð áhættusöm viðskipti og mjög áhættusöm viðskipti.

Viagra, fjárhættuspil og klám

Á öruggari endanum má finna ýmsa fjármálagjörninga og færsluhirðingu fyrir tölvuleikjageirann. Með því að færa sig nær óöruggari endanum koma fjárhættuspil og svo lyfjasala á netinu. Þar er má meðal annars finna viðskipti með Viagra-töflur auk þess sem mismunandi lagaumhverfi milli landa í tengslum við lyfjaviðskipti getur aukið áhættuna.

Samhliða aukinni verslun á netinu hefur velta í áhættusamari viðskiptum …
Samhliða aukinni verslun á netinu hefur velta í áhættusamari viðskiptum einnig aukist til muna. Færsluhirðingafyrirtæki geta fengið háar þóknanir fyrir slík, en á móti kemur mikil áhætta. mbl.is/afp

Lengst á óörugga endanum má svo finna færsluhirðingu fyrir klámviðskipti og annað í þeim geira. Fá fyrirtækin mjög háar þóknanir fyrir að taka að sér slík viðskipti, en á móti kemur að áhættan er talin mjög mikil og þá hafa verið sett spurningamerki við siðferðilega aðkomu fyrirtækja að slíkum viðskiptum.

Annað færsluhirðingarfyrirtæki á Íslandi, Valitor, hafði áður verið nokkuð stórt í áhættusömum viðskiptum á netinu. Meðal annars var fjallað um það í 24 stundum og DV á sínum tíma. Samkvæmt heimildum mbl.is fékk fyrirtækið á sig skell vegna slíkra viðskipta og dró sig í kjölfarið nokkuð úr áhættusamasta hlutanum.

Borgun tók upp áhættusöm viðskipti og veltan stórjókst

Eitt þeirra fyrirtækja sem var í miklum viðskiptum við Valitor á þessum tíma var félagið eMerchantpay, en því er stjórnað af Íslendingi. Þegar leitað er að þjónustuaðila fyrir áhættusöm viðskipti á netinu er það eitt af þeim fyrirtækjum sem birtist fremst í leitarvél Google. Þegar Valitor dró saman seglin í þessum geira færði félagið viðskipti sín yfir til Borgunar og jók það veltu fyrirtækisins á erlendum markaði og í áhættusamari viðskiptum.

Meðal annars má sjá heildarþjónustutekjur Borgunar þrefölduðust á fimm árum.  Fóru þær úr 3,18 milljörðum árið 2009 upp í 6 milljarða árið 2012, 7,45 milljarða árið 2013 og 9,1 milljarð árið 2014. Inn í þeim tölum eru bæði tekjur vegna innlendrar starfsemi og erlendrar. Í ársreikningi fyrir árið 2013 segir meðal annars að aukin erlend starfsemi speglist í hærri þóknunartekjum fyrirtækisins.

Landsbankinn átti um þriðjungshlut í Borgun. Bankinn hefur sagt að …
Landsbankinn átti um þriðjungshlut í Borgun. Bankinn hefur sagt að starfsemi borgunar fylgdi veruleg áhætta sem gæti leitt til tjóns fyrir félagið og skaðað orðspor Landsbankans. mbl.is/Hjörtur

Landsbankinn taldi viðskiptin geta skaðað orðspor sitt

Borgun kynnti á sínum tíma þessi útrásaráform á alþjóðamarkað fyrir hluthöfum. Í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér í dag nefnir hann að verulega áhættusöm netviðskipti Borgunar hafi verið líkleg til að valda félaginu miklum tjóni og skaða bankann, en „að mati bankans fylgdi þeirri starfsemi veruleg áhætta og líkur voru taldar á að hún gæti leitt til tjóns hjá félaginu og skaðað orðspor Landsbankans,“ eins og segir í yfirlýsingu bankans. Þá segir þar einnig að samkvæmt upplýsingum bankans hafi erlend Visa-umsvif Borgunar margfaldast á árinu 2015.

Heimildarmaður mbl.is segir ljóst sé að Landsbankanum hafi ekki litist á blikuna við slíka útrás og ekki viljað tengja sig við jafn vafasöm viðskipti eins og Borgun væri að fara út í.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK