Atriði í starfseminni voru ekki í lagi

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.
Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís. mbl.is/Kristinn

„Þetta eru auðvitað ákveðin vonbrigði fyrir okkur en það þýðir víst ekki að deila við dómarann þegar hér er komið við sögu. En það þýðir ekki að maður sé sáttur við niðurstöðuna,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.

Hæstirétt­ur sýknaði í gær Sam­keppn­is­eft­ir­litið og ís­lenska ríkið af kröf­um Olíu­versl­un­ar Íslands, Skelj­ungs og Olíu­fé­lagið (nú Ker) sem fóru fram á ógild­ingu áfrýj­un­ar­nefnd­ar sam­keppn­is­mála, sem úr­sk­urðaði að fé­lög­in hefðu haft með sér ólög­mætt verðsam­ráð með olíu­vör­ur hér á landi.

Upp­haf máls­ins á ræt­ur að rekja til árs­ins 2001 þegar Sam­keppn­is­stofn­un hóf rann­sókn á ætluðu ólög­mætu sam­ráði olíu­fé­lag­anna á tímabilinu 1993 til 2001.

Olís með hæstu sektina

Jón segir alveg ljóst að á þeim tíma hafi ákveðin atriði í starfseminni ekki verið í lagi. „Það er enginn ágreiningur um það,“ segir Jón. „Ágreiningurinn snerist um útfærsluna á sektunum. Í fyrsta lagi fannst okkur þær vera of háar, þar sem rétt viðmið voru ekki notuð, og við teljum að jafnræðisreglunni hafi ekki verið fylgt.“

Sektirnar nema samanlagt 1,5 millj­arði króna. Þar af þurfti Olíuverslun Íslands að greiða hæstu sektina, eða 560 milljónir króna. Skeljungi var gert að greiða 450 milljónir króna og Ker, sem þá hét Olíufélagið, þurfti að greiða 495 milljóna króna sekt.

Í dómi Hæstaréttar segir að samkeppnisyfirvöld hafi sýnt fram á sannanlegan ábata af ólöglega samráðinu þannig að fullnægt hafi verið lagaskilyrðum til þess að ákvarða sektir allt að 10 prósent af veltu. Í dómi héraðsdóms er rakið að upplýsingar og gögn sem samkeppnisyfirvöld höfðu undir höndum hafi gefið til kynna að ávinningur Olíuverslunar Íslands hafi verið meiri en Skeljungs. 

Þá var mati tveggja dómskvaddra matsmanna, er töldu sektina hafa verið of háa vegna rangra forsendna í útreikningi og breytinga á rekstrartilhögun, hafnað.

„Nú er þessi kafli frá“

Jón vísar til matsins og segir reiknivillur hafa verið í útreikningum Samkeppniseftirlitsins. Jón segir félögin hafa verið gerð upp með mismunandi hætti og bætir við að ekki hafi verið lesið rétt úr niðurstöðum. „Síðan höfum við aldrei fengið neinn rökstuðning fyrir því hvers vegna jafnræðisreglunni var ekki beitt við álagningu sekta,“ segir hann.

„Okkur þykir miður að þetta skuli fara í gegnum dómskerfið án þess að tekið sé tillit til þessara athugasemda þar sem jafnræðið hlýtur að þurfa að gilda.“

Ljóst er að samráðsmálið hefur hangið lengi yfir olíufélögunum. „Við höfum alltaf verið með þetta yfir okkur og verið að glíma við þessa umræðu ásamt því að reyna byggja upp traust á nýjan leik,“ segir Jón. „Nú er þessi kafli frá.“

Jón var ráðinn forstjóri Olís árið 2014 en áður hafði hann starfað hjá félaginu sem framkvæmdastjóri í tvo áratugi. Á þeim tíma var Jón forstöðumaður smásölusviðs og fyrirtækjasviðs.

Fákeppni kost­ar millj­arða

Í lok síðasta árs kom út markaðsrann­sókn­ frá Sam­keppn­is­eft­ir­lit­inu um ol­íu­markaðinn.

Í niður­stöðum rann­sókn­ar­inn­ar sagði að sam­keppni væri veru­lega skert á mik­il­væg­um hluta markaðar­ins og að þörf væri á aðgerðum til að bæta hag al­menn­ings.

Talið er að neyt­end­ur hafi greitt 4 til 4,5 millj­örðum króna of mikið fyr­ir bif­reiðaeldsneyti í smá­sölu árið 2014.

Frétt mbl.is: N1 ekki til við olíusamráðið

Frétt mbl.is: Staðfest­ir úr­sk­urð um verðsam­ráð

Frétt mbl.is: „Hagn­ast sem mest á kostnað neyt­enda“

Frétt mbl.is: Fákeppni kost­ar neyt­end­ur millj­arða

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK