Munur á heilum og unnum skordýrum

Crowbar Protein komst á laggirnar með tilstuðlan Icelandic Startups og …
Crowbar Protein komst á laggirnar með tilstuðlan Icelandic Startups og með stuðningi frá Tækniþróunarsjóði og hönnunarsjóði.

Munur er á því hvort skordýr eru seld í heilu lagi eða hvort þau séu unnin og blönduð öðrum matvælum. Þetta segir Helga Páls­dótt­ir, starfsmaður Mat­væla­stofn­unar. Slíkar vörur, líkt og Jungle Bar, séu hvergi leyfðar í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Stofn­end­ur Crowb­ar Protein, sem fram­leiðir skor­dýra snakkið Jungle Bar, hafa sakað Helgu um ósannsögli, fyrir að hafa sagt að hvergi hefði verið sótt um leyfi fyr­ir neinu skor­dýri og að skor­dýr væru bara ekki leyfð á neyt­enda­markaði í Evrópu.

Þeir hafa vísað til tölvupóstsamskipta við Helgu þar sem fram kemur að sama krybba og notuð er í Jungle Bar, er m.a. á lista yfir leyfileg skordýr í Belgíu. Þá sé sala á skordýrum einnig heimil í Hollandi og Bretlandi.

Frétt mbl.is: „Starfsmaður MAST segir ósatt“

Sala á skordýrum er bönnuð í Evrópu samkvæmt reglugerð sambandsins um nýfæði. Reglugerðin var nýlega innleidd á Íslandi, aðeins örfáum dögum áður en Jungle Bar var sett í sölu. Skordýrasnakkið var því tekið aftur úr búðarhillum eftir að hafa verið í boði í fjóra daga. Nú þurfa framleiðendur að farga afurðinni eða senda hana úr landi.

Helga segist hafa leitað til framkvæmdastjórar Evrópusambandsins þegar sótt var um leyfi fyrir sölunni á Jungle bar og fengið skýra neitun.

Hún segir að reglugerðinni hafi verið ætlað að ná yfir sölu á öllum skordýraafurðum. Hins vegar hafi fyrrnefndu löndin, Belgía, Bretland og Holland, ákveðið að túlka reglugerðina á annan hátt og heimila sölu á heilum skordýrum. Um leið og farið er að vinna úr þeim aðrar vörur verður salan hins vegar óheimil. 

Helga segir að fyrirtækið geti prófað að sækja um leyfi til framkvæmdastjórnarinnar fyrir Jungle bar.

Aðspurð hvers vegna fyrirtækið þurfi að farga vörunni, eða senda úr landi, á eigin kostnað segir Helga það vera hlutverk framleiðanda að vita hvaða lög og reglur séu í gildi.

Liðka fyrir skordýrasölu

Einhver framþróun virðist vera í þessum málaflokki innan Evrópusambandsins enda teljast skordýrin vera umhverfisvæn framleiðsla. Helga segir að Evrópusambandið sé búið að gera áhættumat á nokkrum skordýrategundum og virðist sem ekkert sé að óttast.

Þá er verið að endurskrifa reglugerðina um nýfæði þannig að hægt sé að óska eftir flýtimeðferð á leyfisumsókn fyrir matvælum sem eru þekkt í þróunarlöndum en ekki á svæði Evrópusambandsins.

Uppfært kl. 12:34. Í tilkynningu frá Crowbar Protein segir að Helga fari aftur með rangt mál þar sem hollenskt fyrirtæki hafi selt heila vörulínu af matvælum sem innihalda unnin skordýr í stærstu matvörukeðjum Hollands í þrjú ár. Í innihaldslýsingu segir að varan innihaldi „ground buffalo worms“.

Frétt mbl.is: Skor­dýrasnakk í banda­rísk­ar búðir

Frétt mbl.is: Skor­dýrasnakk tekið úr hill­um

Matvælastofnun hefur tekið fyrir sölu á skordýrasnakkinu Jungle Bar.
Matvælastofnun hefur tekið fyrir sölu á skordýrasnakkinu Jungle Bar. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK