Nýir stjórnendur hjá Deloitte

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Í byrjun febrúar voru gerðar breytingar á skatta- og lögfræðisviði Deloitte. Páll Jóhannesson tók við stöðu sviðsstjóra af Völu Valtýsdóttur, sem hefur sinnt stöðunni undanfarin 10 ár. Páll verður jafnframt einn af meðeigendum Deloitte.

Páll Jóhannesson hefur undanfarin sjö ár starfað hjá Nordik lögfræðiþjónustu en hann var einn af stofnendum lögmannsstofunnar. Hann hefur einnig sinnt stundakennslu við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Á árunum 2002-2007 starfaði Páll hjá Deloitte, þar af sem forstöðumaður skatta- og lögfræðisviðs frá árinu 2006.

Endurnýjun á rekstrarsviði

Margrét Sanders, framkvæmdastjóri rekstrar, sagði starfi sínu lausu í október og hættir í mars eftir 16 ár hjá Deloitte. Í tengslum við það tók nýtt skipulag rekstrarsviðs gildi hinn 1. febrúar sl. en nýir stjórnendur innan þess verða:

Sunna Einarsdóttir, sem tekur við starfi fjármálastjóra. Sunna er með cand. oecon.-gráðu frá Aarhus University og hóf störf hjá Deloitte á Íslandi árið 2014. Fram að því starfaði hún sem ráðgjafi hjá Business Process Solutions-deild Deloitte í Danmörku, sem sérhæfir sig í rekstrarráðgjöf, útvistun á ferlum innan fjármáladeilda og tímabundinni mönnun á lykilstöðum fjármáladeilda á álagstímum.

Í störfum sínum hjá Deloitte á Íslandi hefur Sunna unnið að stofnun og viðskiptaþróun sömu deildar á Íslandi, ásamt því að sinna ráðgjafarverkefnum bæði hér heima og á alþjóðavísu og mun hún halda því starfi áfram að hluta.

Harpa Þorláksdóttir, sem tekur við starfi mannauðsstjóra. Harpa hóf störf hjá Deloitte árið 2009 sem forstöðumaður viðskipta- og markaðstengsla. Áður en hún réðst til starfa hjá Deloitte starfaði hún sem forstöðumaður samskiptasviðs hjá Atorku, sölu- og markaðsstjóri Þyrpingar og forstöðumaður markaðsdeildar hjá Eimskip. Harpa er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc.-gráðu í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri.

Haraldur I. Birgisson tekur við starfi forstöðumanns viðskipta- og markaðstengsla. Haraldur hóf störf hjá Deloitte snemma árs 2014 en starfaði áður hjá Viðskiptaráði Íslands í um sjö ár, þar af sem aðstoðarframkvæmdastjóri frá árinu 2010. Haraldur er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og öðlaðist hann lögmannsréttindi árið 2011. Í störfum sínum á skatta- og lögfræðisviði Deloitte hefur Haraldur einkum sinnt verkefnum á sviði alþjóðlegs skattaréttar en jafnframt aðstoðað nýsköpunarfyrirtæki með fjölmörg verkefni og annast viðskiptaþróun sviðsins. Haraldur mun áfram sinna sínu starfi að hluta á skatta- og lögfræðisviði.

Auk þessara þriggja nýju stjórnenda á rekstrarsviðinu er Heimir Snorrason yfirmaður tölvumála. Heimir hefur starfað hjá Deloitte frá árinu 2003 og í upplýsingatæknigeiranum í yfir tvo áratugi. Hann er með mikla starfsreynslu hjá bæði stórum sem vaxandi fyrirtækjum og býr yfir sérhæfðri þekkingu á hugbúnaðar- og tæknilausnum. Heimir er rafeindavirki á tölvu- og fjarskiptasviði og hefur lokið námi í kerfisfræði.

Breytingarnar taka mið af 2020 stefnumótun Deloitte sem samþykkt var undir lok árs 2014.

Sunna Einarsdóttir
Sunna Einarsdóttir
Harpa Þorláksdóttir
Harpa Þorláksdóttir
Haraldur I. Birgisson
Haraldur I. Birgisson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK