Dýrustu íbúðirnar svipaðar og í Noregi

Fermetraverð í dýrustu íbúðum Skuggahverfisins er svipað og í dýrustu …
Fermetraverð í dýrustu íbúðum Skuggahverfisins er svipað og í dýrustu hverfum Noregs. Meðalverð yfir landið er þó mun lægra hér á landi. mbl.is/Sigurður Bogi

Meðalfermetraverð í dýrasta hverfi Noregs er svipað og á dýrustu íbúðum Íslands. Er fermetraverð þeirra um ein milljón krónur. Þetta má sjá út frá nýjustu tölum um íbúðaverð í janúar sem voru að birtast í Noregi og þegar verð á íbúðum í turninum í Skuggahverfi eru bornar saman. Meðalfermetraverð hér á landi er þó langt undir meðalverði í Noregi.

Samkvæmt tölum frá Eiendom Norge, sem tekur saman tölur um fasteignamarkaðinn í Noregi, var hæsta meðalfermetraverð í Noregi í hverfinu Frogner í vesturhluta Óslóar. Kostar fermetrinn þar 70.495 norskar krónur og hefur hækkað um 7,9% á síðasta ári. Næstu níu hverfi á listanum eru einnig öll í Ósló, en meðalfermetraverð þar er á bilinu 50.000 norskar krónur upp í 67.000. 

Ef fermetraverðið í Frogner er breytt í íslenskar krónur sést að verðið þar er að meðaltali rétt rúmlega 1 milljón krónur. Í hinum níu hverfunum sem komast á topp 10 listann er meðalverðið frá 750 þúsund krónum upp í tæplega milljón.

Þetta er á svipuðu reiki og dýrustu eignir í Reykjavík, en árið 2014 var sagt frá því að fermetraverð nýrra íbúða í Skuggahverfinu væri allt að 700 þúsund upp í 1 milljón. Í fyrra var sagt frá því að fermetraverð einnar íbúðar væri tæplega 800 þúsund krónur í sama hverfi, en síðan þá hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu aðeins hækkað. Þá sagði formaður félags fasteignasala á svipuðum tíma að fermetraverð á höfuðborgarsvæðinu væri að fara upp í allt að 1 milljón.

Enn er þó talsvert í að meðalverð hér á landi verði álíka hátt og í Noregi, en meðalfermetraverð í landinu öllu er um 520 þúsund krónur. Til samanburðar er meðalverð í dýrasta hverfi Íslands, miðbæjar Reykjavíkur, um 421 þúsund krónur samkvæmt greiningu Íslandsbanka og á höfuðborgarsvæðinu í heild var verðið 315 þúsund á hvern fermetra. Meðalfermetraverð á landsbyggðinni var aftur á móti á bilinu 97 til 197 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK