Óbreyttir stýrivextir

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans (stýrivextir), vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,75%.

Hagvöxtur í fyrra er talinn hafa verið minni en áætlað var í nóvemberspá bankans eða 4,1% í stað 4,6%. Horfur eru á svipuðum hagvexti í ár eða 4,2%. Það er 1 prósentu meiri vöxtur en spáð var í nóvember og skýrist frávikið af horfum um meiri vöxt einkaneyslu en þá var gert ráð fyrir enda útlit fyrir að laun hækki meira, atvinna vaxi hraðar og verðbólga verði minni.

„Áætlað er að framleiðsluslaki hafi horfið á sl. ári og útlit er fyrir vaxandi spennu. Hækkun launa langt umfram verðbólgumarkmið og framleiðnivöxt eykur verðbólguþrýsting en alþjóðleg þróun orku- og hrávöruverðs og gengisþróun krónunnar vega á móti. Verðbólga hefur verið minni en spáð var í nóvember og horfur eru á að svo verði áfram fram á næsta ár. Verðhjöðnun á alþjóðlegum vörumörkuðum gæti hins vegar stöðvast og snúist við á næstu misserum. Samkvæmt alþjóðlegum spám er búist við að það gerist er líða tekur á þetta ár. Meðal annars þess vegna er gert ráð fyrir að verðbólga hér á landi verði komin yfir 3% undir árslok og í 4% ári síðar. Óvissa er hins vegar um umfang og tímasetningu þessara umskipta.

Alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafa veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.

Greiningardeildir Arion, Íslandsbanka og Landsbanka spáðu því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands myndi halda stýrivöxtum bankans óbreyttum.

Klukkan 10 munu þeir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans kynna ákvörðun peningastefnunefndar og fara yfir horfur í efnahagsmálum en í dag kemur út rit Seðlabankans, Peningamál.

Seðlabanki Íslands hóf í dag formlegar sendingar á efni í gegnum samskiptamiðilinn Twitter. Það var gert í tilefni af fyrstu vaxtaákvörðun á árinu og útgáfu á fyrsta hefti Peningamála á árinu.

„Þeir sem tengjast tístsendingum Seðlabankans geta þannig fengið ábendingar um ákvarðanir um vexti, um sérstakt efni í ritum bankans og upplýsingar um fleira sem Seðlabankinn hefur með að gera. Nú þegar hefur hópur fólks gerst áskrifandi tíst-sendingum bankans. Þeir sem vilja tengjast tístsendingunum þurfa að vera skráðir með aðgang að Twitter og geta þar tengt sig við @sedlabanki_is eða við enska hlutann sem er @centralbank_is.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK