Óeðlilegt verklag og lánað án trygginga

Jim Smart

Verklag Sparisjóðs Suður-Þingeyinga varðandi útlán er ekki í samræmi við ákvæði laga og reglna er varða eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í athugun Fjármálaeftirlitsins á starfsemi sjóðsins. Kannaðar voru heildarskuldbindingar er námu um 1.560 milljónum króna eða 44,8% af útlánum og veittum ábyrgðum sjóðsins.

Niðurstöður athugunarinnar lágu fyrir í janúar 2016 og miðast annars vegar við 31. desember 2014 og hins vegar við 30. september 2015.

Fjármálaeftirlitið gerði einnig athugasemd við mat á afskriftaþörf útlána og taldi að auka þyrfti framlög í sérgreindan afskriftareikning útlána eða grípa til annarra viðeigandi ráðstafana.

Þá var gerð athugasemd við að þær fundargerðir sem yfirfarnar voru báru ekki með sér að stjórn hefði sinnt eftirlitshlutverki sínu eða fjallað með reglubundnum hætti um vanskil og áhættustýringu sparisjóðsins til samræmis við ákvæði í starfsreglum stjórnar sparisjóðsins.

Einnig gætti misræmis milli upplýsinga sem sparisjóðurinn afhenti Fjármálaeftirlitinu í tengslum við athugunina og upplýsinga úr reglulegri skýrslugjöf sparisjóðsins til eftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar.

Þá gerði eftirlitið athugasemd við skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar miðað við 31. desember 2014.

Skuldbindingar ekki tengdar

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við að í tveimur tilvikum veitti sjóðurinn lán án trygginga og í tveimur tilvikum var gerð athugasemd við vinnubrögð og verklag sparisjóðsins við veitingu lána. Þá gerði eftirlitið athugasemd við að sjóðurinn tengdi ekki skuldbindingar þriggja lántakenda sem teljast til hóps tengdra viðskiptavina.

Eftirlitið hefur gert kröfur um að Sparisjóður Suður-Þingeyinga ses. geri viðeigandi úrbætur vegna athugasemdanna. Sparisjóðurinn á að skila úttekt á úrbótum og skila Fjármálaeftirlitinu greinargerð í apríl nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK