„Öllu snúið á hvolf“

Björólfur Thor hefur farið fram á frávísun.
Björólfur Thor hefur farið fram á frávísun.

Tekist er á um frávísunarkröfu Björgólfs Thors Björgólfssonar á hópmálsókn sem hluthafar Landsbankans höfðuðu gegn honum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Lögmaður Björgólfs segir hann mótmæla því að nokkur einasti grundvöllur sé fyrir bótaskyldu.

Þetta kom fram í máli Reimars Péturssonar, lögmanns, við upphaf málflutnings í morgun. Hann sagði skaðabótakröfu hluthafa byggja á tilhæfulausum og framandi ásökunum. Í málinu sé öllum hugmyndum um áhættufjárfestingu snúið á hvolf auk þess sem hið meinta tjón hafi ekki verið rökstutt nægilega vel.

Málið gegn Björgólfi var þingfest hinn 27. október sl. Í stefnu máls­ins seg­ir að fé­lags­menn séu all­ir í þeirri stöðu að hafa orðið fyr­ir tjóni vegna þess að þeir áttu hluta­bréf í Lands­bank­an­um sem urðu verðlaus við fall bankans 7. októ­ber 2008 og að þeir hafi verið í þeirri stöðu vegna sak­næmr­ar hátt­semi Björgólfs.

Þeir hefðu ekki kært sig um að vera hlut­haf­ar ef upp­lýst hefði verið að Lands­bank­inn lyti stjórn Sam­son, eignarhaldsfélags Björgólfs, og hefði átt að telj­ast móður­fé­lag hans. Eins ef upp­lýst hefði verið um um­fangs­mikl­ar lán­veit­ing­ar bank­ans til Björgólfs. Hann hafi bæði brotið gegn upplýsinga- og yfirtökuskyldu.

Björgólfur hefur mótmælt þessu og sagt illt að dómskerfið þurfi að eyða tíma sínum í þennan málatilbúnað. Hann hefur sagt málið vera sprottið af þrá­hyggju Vil­hjálms Bjarna­son­ar, sem eigi sér lít­il tak­mörk.

„Kalla ekki allt ömmu sína“

Fyrir dómi vísaði Reimar til framkvæmdarinnar í Bandaríkjunum „þar sem menn kalla ekki allt ömmu sína“ líkt og hann sagði. Þar detti engum í hug að hluthafar geti höfðað mál vegna þess að þeir hefðu selt ef þeir hefðu vitað af einhverju. Hann sagði hluthafa einfaldlega taka mið af þeim upplýsingum sem fyrir liggja við kaupin. Á því sem eftir gerist verði þeir sjálfir að axla ábyrgð.

Reimar sagði eðli fjárfestingar vera þannig að henni geti alltaf hlotist tjón. Stefnendur þurfi að útskýra nákvæmlega hvernig hin meinta bótaskylda háttsemi hafi valdið þeim meira tapi en ella hefði orðið. Orsakir þess að hlutabréfin fóru niður í núll hefðu ekkert með sakarefnið að gera. Tjónið hefði orðið burt séð frá sakarefninu.

„Ef - þá hefði“

Í stefnunni er miðað við að upplýsinga- og yfirtökuskyldan hafi myndast á árinu 2006. Reimar sagði röksemdafærsluna byggja á „ef, þá hefði“ málflutningi, þar sem miðað er við að allir hluthafar hefðu selt sína hluti ef allar upplýsingar hefðu legið fyrir á þeim tíma. Þetta sagði Reimar að einnig mætti nefna ágiskun. Slík röksemdafærsla þurfi sérstaklega rækilega skoðun.

Hann sagði það stórkostlegan annmarka að í stefnunni kæmi ekki fram hvert yfirtökutilboðið hefði átt að vera eða hvort hluthafar hefðu yfir höfuð tekið því og þannig selt sína hluti.

Þá sé ekki greint frá því hvenær hver og einn meðlimur málsóknarfélagsins hafi keypt sína hluti eða á hvaða verði. Gera þurfi grein fyrir tjóni hvers og eins.

„Það er ótrúlegt að hópur fjárfesta sé hérna kominn í mál án þess að gera nokkra grein fyrir því hvenær þeir keyptu eða á hvaða verði,“ sagði Reimar.

Árni Harðar með meirihlutann

Við fyrirtöku málsins í desember stóðu alls 269 einstaklingar og fyrirtæki á bak við málsóknina. Komið hefur fram að Árni Harðarson, stjórnarmaður og lögmaður Alvogen, á rúm sextíu prósent þeirra hlutabréfa sem eru að baki málsókninni. Árni og Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, hafa átt í löngum deilum við Björgólf sem hefur m.a. stefnt þeim báðum til greiðslu skaðabóta fyrir meintan fjárdrátt.

Félag Róberts, Urriðahæð ehf., sem fer með hlutina keypti þá á 25 til 20 milljónir króna.

Björgólfur hefur sagt þetta vera hefnigirni hjá Árna, sem hefur svarað fullum hálsi og sagt fullyrðingarnar Björgólfs vera bull.

Fyrir dómi í morgun spurði Reimar hvaða mögulega tjóni þeir sem keyptu hlutina eftir þrot bankans hafi orðið fyrir. „Þeir eru bara að kaupa verðlausa hluti og það getur ekki verið neitt tjón í því,“ sagði hann.

Tekist er á um kröfuna í héraðsdómi Reykjavíkur.
Tekist er á um kröfuna í héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is
Í stefnu er miðað við að hluthafar hefðu selt ef …
Í stefnu er miðað við að hluthafar hefðu selt ef allar upplýsingar hefðu legið fyrir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Jó­hann­es Bjarni Björns­son, lögmaður og eig­andi Lands­laga, er formaður málsóknarfélagsins …
Jó­hann­es Bjarni Björns­son, lögmaður og eig­andi Lands­laga, er formaður málsóknarfélagsins sem heldur utan um málsóknina. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK