Telur millifærslur geta verið ólöglegar

Eva Joly segir að áætla megi að með greiðslum fyrir …
Eva Joly segir að áætla megi að með greiðslum fyrir einkaleyfi komist IKEA á Íslandi hjá greiðslum á 140 milljónum í skatt á hverju ári. mbl.is/Hjörtur

Ef miðað er við tölur frá Svíþjóð má gera ráð fyrir því að skattaundanskot frá IKEA á Íslandi til dótturfélaga IKEA samstæðunnar í Hollandi, Lúxemborg og Liechtenstein komi í veg fyrir árlegar skattgreiðslur upp á um 1 milljón evrur hér á landi. Þetta segir Eva Joly, þingmaður Græningja á Evrópuþinginu og fyrrverandi rannsóknardómari, í samtali við mbl.is. Hún segist vilja sjá ákæruvaldið hér á landi skoða þessar millifærslur sem hún telur að geti jafnvel verið ólöglegar.

Vildu skoða nánar tvískiptingu IKEA

Joly er varaformaður í nefnd um skattamál hjá Evrópuþinginu. Í nóvember á síðasta ári komu forsvarsmenn margra stórra alþjóðlegra fyrirtækja fyrir nefndina til vegna ásakana um að þau væru að koma háum upphæðum undan skatti með því að setja upp flókin net eignarhaldsfélaga og með að nota lánveitingar innan eigin samstæðu.

Frétt mbl.is: Ekki beint gegn IKEA á Íslandi

Frétt mbl.is: Umfangsmikil skattaundanskot IKEA

Meðal annars kom framkvæmdastjóri skatta og fjármála hjá IKEA fyrir nefndina þar sem hann sagði að nefndarmenn væru að misskilja málið, þar sem það væru í raun tvær einingar; IKEA og Inter IKEA. Joly segir að þetta hafi vakið áhuga hennar og annarra á að skoða nánar málefni Inter IKEA og ráðist hafi verið í rannsókn á skattamálum félagsins sem hafi teygt sig nokkuð víða.

Áætlar 140 milljóna undanskot frá IKEA hér á landi

Gerðu Græningjar á Evrópuþinginu skýrslu um málið sem mbl.is sagði frá fyrr í dag. Segir Joly að hún sýni að IKEA hafi skipulagt sig til að spara einn milljarð evra, eða sem nemur 142 milljörðum íslenskra króna yfir sex ára tímabil. Árið 2014 námu þessi skattaundanskot meðal annars 35 milljónum evra í Þýskalandi og 24 milljónum í Frakklandi.

Eva Joly þingmaður Græningja á Evrópuþinginu og fyrrverandi rannsóknardómari,
Eva Joly þingmaður Græningja á Evrópuþinginu og fyrrverandi rannsóknardómari, mbl.is/Árni Sæberg

Segir Joly að miðað við áætlað umfang undanskotanna í Svíþjóð megi gera ráð fyrir að þau nemi um 1 milljón evra hér á landi árlega, en það nemur um 142 milljónum króna. „Ef ég væri íslenska ákæruvaldið myndi ég fara og skoða málið,“ segir hún og bætir við að það sama eigi við um saksóknara um alla Evrópu.

Vonar að málið verði skoðað frekar

Skýrslan er að sögn Joly bæði fræðsla fyrir almenning um hvernig þessum málum er háttað og þá muni þetta vonandi verða til þess að fjölmiðlar leiti frekari svara við þeim málum sem komi þar fram. Hefur hún þegar sent ráðherra skattamála og ráðherra samkeppnismála hjá Evrópusambandinu erindi þar sem hún fer fram á að málefni IKEA séu skoðuð í ljósi skýrslunnar og athugað hvort um sé að ræða brot á samkeppnislögum og brot á skattalögum.

Kamprad fjölskyldan meðal þeirra stærstu í skattaundanskotum

Aðspurð hvort hún telji undanskot IKEA vera lögbrot segir hún að þau þurfi ekki endilega að vera lögbrot og að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi sagt að þeir telji þetta löglegt. Aftur á móti segir hún Kamprad fjölskylduna, sem á IKEA samstæðuna, vera meðal þeirra stærstu þegar kemur að skattaundanskotum einstaklinga í Evrópu.

Unnið er að lögum til að komast hjá skattaundanskotum (Anti-Tax Avoi­dance Packa­ge) og hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skilað af sér tillögum þar að lútandi. Joly segir að enn þurfi mikið að breyta hugmyndunum þannig að þær nái að stoppa skattaundanskot og skýrslan sýni bersýnilega að enn séu færi fyrir stór alþjóðleg fyrirtæki til að koma fjármunum undan skatti. Hún segist samt bjartsýn á að á næstu árum muni takast að girða að miklu leyti fyrir þetta í Evrópu.

Er að eyðileggja millistór fyrirtæki

Segir hún núverandi ástand óásættanlegt þar sem enn sé ákveðin efnahagskrísa í Evrópu og nauðsynlegt sé að dreifa skattabyrðinni yfir alla. Segir hún stöðuna núna vera að eyðileggja millistór fyrirtæki sem geti illa verið í samkeppni við stærri fyrirtækin sem noti svona leiðir til að hagnast meira. Segir Joly að finna þurfi leiðir til að skattleggja fyrirtækin sem reyni að nýta sér svona leiðir.

Uppfært kl: 15:36 13.2.2015: Eva Joly tekur fram að ásakanirnar um skattaundanskot eiga ekki við rekstarfélag IKEA á Íslandi eða önnur rekstarfélög verslana víða um heim, heldur sé um að ræða rukkanir móðurfélags á einkaleyfisgjöldum. Þær tekjur eru svo færðar í félög í Hollandi, Lúxemborg, Belgíu og Lichtenstein til að komast hjá skattgreiðslum.

Frétt mbl.is: Umfangsmikil skattaundanskot IKEA

Frétt mbl.is: Ekki beint gegn IKEA á Íslandi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK