Ástæða til að staldra við uppbyggingu

Herbergjafjölgun helst nú í hendur við áætlaða fjölgun ferðamanna. Ef …
Herbergjafjölgun helst nú í hendur við áætlaða fjölgun ferðamanna. Ef herbergjum fjölgar áfram á sama hraða gæti verið ástæða til að staldra við. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ef tilkynnt verður um nýjar hótelbyggingar á næstunni með álíka hraði og síðustu misseri gætu gul ljós kviknað í mælaborðinu. 

Þetta kemur fram í nýjustu Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka undir yfirskriftinni „Stefnir í mettun á hótelmarkaði?“

Bent er á að mikil fjölgun ferðamanna hafi skilað sér í skorti á gistirýmum á höfuðborgarsvæðinu yfir stóran hluta ársins og á sumrin víða á landsbyggðinni. Enn er þörf fyrir fleiri hótel og gistirými, en það sem nú er á teikniborðinu virðist fara langt með að fullnægja þörf á hótelrýmum ef spá um tvær milljónir ferðamanna innan þriggja ára gengur eftir.

Fjölgar um 60 prósent

Samkvæmt tilkynntum fyrirætlunum má áætla að framboð hótelherbergja muni aukast um 2.400 fram til ársins 2019, eða sextíu prósent. 

Í úttekt greiningardeildar á ferðaþjónustunni sem gefin var út í september var aftur á móti gert ráð fyrir 35 prósenta framboðsaukningu frá ársbyrjun 2016 fram til 2019. 

Í herbergjum talið nemur aukningin um 1.100 frá því í september. Mesta framboðsaukningin verður 2018 og 2019 en það endurspeglar fjölda þeirra hótelbygginga sem tilkynnt hefur verið um á síðustu mánuðum.

Þá er ekki bara mikil aukning hótelframboðs í kortunum á höfuðborgarsvæðinu því á landsbyggðinni eru 1.300 herbergi áætluð, einkum á Suðurlandi.

Þannig er útlit fyrir að heildarhótelframboð aukist um fjörutíu prósent fram til 2018 og 56 prósent fram til 2019.

Til samanburðar má geta að greiningardeild spáir tveimur milljónum ferðamanna árið 2018, sem er 60% fjölgun frá 2015.

Ef báðar spár ganga eftir er því ekki útlit fyrir að það verði offramboð á hótelherbergjum. Aftur á móti ef fjölgun hótela verður meiri og ef greiningardeildin hefur ofspáð fjölgun ferðamanna, er nokkuð ljóst að offramboð verður á hótelherbergjum.

Nýtingin dregist lítillega saman

Þá segir greiningardeildin að einnig sé ástæða til að staldra við fullyrðingar um tölur Hagstofunnar um herbergjanýtingu en þær hafa verið færðar nokkuð niður á við. 

Þegar ferðaþjónustuúttekt Arion kom í september sl. virtist nýting á hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu, sem var 84 prósent, hafa verið betri en í helstu stórborgum Evrópu árið 2014.

Samkvæmt uppfærðum tölum var hún tæp 78 prósent og því sú fimmta besta, sem telst samt sem áður mjög góð nýting.

Í fyrra jókst nýting almennt utan sumartímans, en yfir sumartímann dróst hún aðeins saman, og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Nýting batnaði því um þrjú prósentustig á landinu öllu og var 65 prósent árið 2015 en hún batnaði um eitt prósentustig á höfuðborgarsvæðinu og var 79 prósent árið 2015.

Ekki hafa verið birtar tölur fyrir janúar sl. en að mati greiningardeildarinnar má ætla að nýtingarhlutfall Icelandair hotels hafi verið 61 prósent sem er sex prósenta samdráttur milli ára.

Hótelum fjölgar hratt í borginni.
Hótelum fjölgar hratt í borginni. mbl.is/Árni Sæberg
Ef fjölgun ferðamanna hefur verið ofspáð gæti myndast offramboð á …
Ef fjölgun ferðamanna hefur verið ofspáð gæti myndast offramboð á hótelherbergjum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK