Eiginfjárstaðan aldrei sterkari

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Meðaleiginfjárhlutfall íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja nam 32 prósentum í lok ársins 2014. Þetta er hæsta hlutfall sem mælst hefur frá því Hagstofan hóf að safna gögnum um rekstrartölur sjávarútvegsins árið 1997.

Á árunum 1997 til 2007 var eiginfjárhlutfallið fremur stöðugt eða á bilinu 24 til 31 prósent.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans þar sem bent er á að mikil umskipti hafi hins vegar orðið árið 2008 þegar eiginfjárhlutfallið varð neikvætt um átján prósent vegna veikingar krónunnar. Síðan þá hefur leiðin legið stöðugt upp á við.

Heildarskuldir sjávarútvegsins urðu mestar árið 2009 þegar þær námu 542 milljörðum króna en þær voru síðan komnar niður í 389 milljarða í lok árs 2014. Skuldirnar hafa þannig lækkað um 153 milljarða króna.

Undirliggjandi rekstur sjávarútvegsins breyttist töluvert til hins betra við gengisfallið enda mun stærri hluti tekna en gjalda í erlendri mynt. Mörg fyrirtæki nýttu því tækifærið og greiddu niður umtalsvert af skuldum sínum. Þarna skipti líka máli að fjárfesting í greininni dróst mikið saman m.a. vegna óvissu um framtíðartilhögun fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Í Hagsjánni er bent á að einn af mælikvörðum á getu rekstrar til að standa skil á skuldum sé hlutfall skulda og EBITDA en hlutfallið gefur til kynna hversu mörg ár það tekur undirliggjandi rekstur fyrirtækisins að greiða upp allar skuldir.

Þetta hlutfall hefur verið verulega hagstætt síðustu ár og verið á bilinu 5,3 til 6,6 en til samanburðar var það á bilinu 9 til 13 á árabilinu 2004 til 2008 en þá jókst skuldsetning greinarinnar mikið.

Þrátt fyrir að hlutfallið hafi reynst hagstætt á síðustu árum versnaði það þó aðeins milli áranna 2013 og 2014.

Það skýrist bæði af hækkun skulda en þó meira vegna þess að EBITDA greinarinnar dróst saman milli þessara ára. Þannig jukust skuldir um 2,1 prósent á sama tíma og EBITDA dróst saman um 19 prósent.

EBITDA bæði í fiskveiðum og fiskvinnslu dróst saman milli ára. Þó var mun meiri samdráttur í vinnslu en veiðum. Þannig dróst EBITDA saman um 27 prósent í vinnslu en einungis átta prósent í veiðum. Rúm áttatíu prósent af samdrættinum í EBITDA í heild má rekja til samdráttar í vinnslu en einungis tuttugu prósent til veiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK