Breytingar við Suðurlandsbraut

Suðurlandsbraut 8
Suðurlandsbraut 8 mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Eik fasteignafélag áformar að fjárfesta í húsnæði félagsins fyrir tæplega 1,8 milljarð króna á þessu ári. Að miklu leyti er um að ræða uppbyggingu á Suðurlandsbraut 8 í Reykjavík, en félagið hefur ákveðið að endurgera húsið og stækka það um tvær hæðir.

Þetta kemur fram í rekstraráætlun Eikar en mbl greindi einnig frá áformum félagsins á Suðurlandsbraut á síðasta ári. Forstjóri Eikar, Garðar Hannes Friðjónsson, hefur þá áður sagst hafa mikla trú á svæðinu enda hefur Eik fjárfest í töluvert af húsnæði þar, í Skeif­unni og Múl­an­um. Nefndi Garðar þá einnig að hverfið væri mjög miðsvæðis og stutt frá Borgartúni og miðbæ­num.

Auk þess sem tveimur hæðum verður bætt við Suðurlandsbraut 8 verður bílastæðahús byggt þar fyrir aftan.

Uppbygging á Suðurlandsbraut 10

Þá er verið að huga að því að fara í sambærilega framkvæmd á Suðurlandsbraut 10, þar sem t.d. Fasteignasala Íslands er til húsa.

Heildarkostnaður við uppbyggingu beggja bygginga er áætlaður um 2,45 milljarðar króna.

Stækkunin nemur samanlagt rúmum 3.300 fermetrum og verður heildarstærð fasteignanna tæpir 9.300 fermetrar.

Í lok árs 2015 var bókfært virði eignanna 684 milljónir króna en að teknu tilliti til bókfærðs verðs og heildarkostnaðar er ráðgert að verkefnið skili 7 til 7,5 prósent ávöxtun.

Áætlað er að framkvæmdum ljúki á árinu 2017.

Endurbætur á höfuðstöðvum VÍS

Félagið ætlar einnig að ráðast í endurbætur og stækkun á Ármúla 3 í Reykjavík, þar sem höfuðstöðvar VÍS eru. Framkvæmdir þar eru minni í sniðum en við Suðurlandsbraut 8 og 10 og er áætlaður kostnaður við þær 324 milljónir króna.

Félagið hyggst skipta um glugga og gluggakerfi í allri aðalbyggingunni auk þess að stækka kjallarann til norðvesturs. Þar verður mötuneyti hússins staðsett í framtíðinni og mun því innra skipulag kjallarans taka miklum breytingum auk þess sem starfsmanna inngangur á norðurhlið verður endurnýjaður. Lagnaleiðir og salerni verða endurskipulögð og þannig verður létt á sameign hússins með tilheyrandi fjölgun útleigufermetra.

Tiltölulega stutt er eftir af leigusamningi Eikar við VÍS í Ármúla 3 en í rekstraráætlun Eikar segir að það sé mat félagsins að tekjustreymi leigurýmisins verði áfram sterkt.

Suðurlandsbraut 10.
Suðurlandsbraut 10. Skjáskot af Já.is
Ármúli 3.
Ármúli 3. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK